Álfheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra hitti sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum í gær, föstudag, í Álfagerði.
Fundinn sóttu stjórnarmenn í Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, ásamt framkvæmdastjóra og bæjarstjórum.
Á fundinum var farið yfir stöðu heilbrigðisþjónustunnar á Suðurnesjum, sjúkraflutninga og uppbyggingu hjúkrunarrýma. Ráðherra hlustaði á sjónarmið heimamanna og greindi frá sinni framtíðarsýn. Fulltrúar sveitarfélaganna á Suðurnesjum lýstu yfir áhuga á viðræðum um yfirtöku á hlutum heilbrigðisþjónustunnar.
Fundurinn var mjög gagnlegur og upplýsandi fyrir alla aðila og var ákveðið að halda tvo fundi eftir páska með það að markmiði að koma málefnum heilbrigðisþjónustunnar á Suðurnesjum í betra horf.
Að fundinum loknum fór ráðherra með Róberti Ragnarssyni bæjarstjóra í Vogum og skoðaði aðstöðu heilsugæslunnar í Vogum, sem var endanlega lokað fyrir tæpu ári síðan.
Á mynd: Berglind Kristinsdóttir, Sigmar Eðvarðsson, Laufey Erlendsdóttir, Sigurður Valur Ásbjarnarson, Árni Sigfússon, Birgir Örn Ólafsson, Álfheiður Ingadóttir, Róbert Ragnarsson, Óskar Gunnarsson og Ásmundur Friðriksson að loknum fundi í Álfagerði.