Mánudaginn 17. júní voru hátíðarhöld í sveitarfélaginu Vogum í tilefni þjóðhátíðardagsins. Þar gátu gestir fundið sér ýmislegt til skemmtunar. Boðið var upp á hoppukastala, bubblubolta, kæjakróður á tjörninni, andlitsmálun, dýragarð þar sem hægt var að fylgjast með dýrum og fá að snerta þau. Einnig komu tveir bæjarbúar á stórglæsilegu mótorhjóli sem sjá má á meðfylgjandi mynd og leyfðu börnum að sitja á því smá rúnt.
Kvenfélagið Fjóla sá um stórfenglegt kökuhlaðborð og Lionsklúbburinn Keilir var með sjoppu á planinu fyrir utan Tjarnarsalinn. Fulltrúi sveitarfélagsins sá ekki nema eina helíumblöðru svífa burt og telst það sennilega nokkuð gott.
Sveitarfélagið vill þakka öllum sem lögðu fram krafta sína kærlega fyrir það er mjög mikilvægt fyrir samfélagið að eiga einstaklinga sem eru tilbúnir að fórna tíma sínum í þágu okkar allra. Einnig þökkum við öllum gestum hátíðarinnar, það skrifuðu 160 manns sig í gestabók Kvenfélagsins þannig að það má áætla að yfir 200 manns hafi tekið þátt.