Á morgun er þjóðhátíðardagur Íslendinga, 17. júní. Þá gera landsmenn sér oftast glaðan dag og það þrátt fyrir að veðrið leiki ekki alltaf við okkur. Það virðist reyndar ætla að verða skaplegt á morgun, allavega spáir ekki rigningu eins og er. Hér í sveitarfélaginu höfum við einnig haldið þeim vana að blása til veislu og hefur sveitarfélagið boðið ungum sem öldnum upp á dagskrá. Í ár eru aðstæður því miður með öðrum hætti eins og allir vita og þrátt fyrir ákveðnar tilslakanir á samkomureglun hafa flest sveitarfélög ákveðið að halda að sér höndum varðandi fjöldasamkomur, a.m.k. enn um sinn.
Sveitarfélagið Vogar mun standa fyrir lítilli athöfn í Tjarnarsalnum kl. 11.00. Athöfnin er lokuð almenningi en henni verður streymt í samstarfi við VogarTV. Hlekkur á streymið er hér fyrir neðan. Þar verða veitt verðlaun í ljósmyndasamkeppni grunnskólanemenda, viðurkenningar úr mennta-, menningar- og afreksmannasjóði og menningarverðlaun sveitarfélagsins verða afhent. Boðið verður upp á tónlistaratriði og m.a. munu tveir nemendur tónlistarskólans í Vogum leika á píanó.
Sett verður upp sýning á ljósmyndum sem bárust í ljósmyndasamkeppni grunnskólanemenda og verður sýningin í Aragerði. Við hvetjum bæjarbúa til að skoða sýninguna og njóta svo dagsins saman og þess sem han hefur upp á að bjóða. Til dæmis er tilvalið að kíkja á frisbígolfvöllinn okkar og þá verður sundlaugin opin milli 12 og 15.
Eins og áður sagði hefst athöfnin kl. 11.00. Hún hefst með samsöng og auðvitað er það lagið "okkar" Ég er kominn heim sem verður sungið í upphafi. Við hvetjum alla íbúa til að flagga við heimili sín og ekki væri verra að fólk færi út fyrir dyr og léti sönginn hljóma um bæinn.
Hlekkur á streymið er hér: https://www.youtube.com/watch?v=FmxhpOAX2fc