Háspennulínur á suðvesturlandi. Kynningarfundur í Vogum

Auglýsing frá Landsneti hf.

Landsnet undirbýr endurnýjun og styrkingu raforkuflutningskerfisins á Suðvesturlandi.
Framkvæmdin er matsskyld samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum. Vinna við matið er hafin og annast EFLA verkfræðistofa verkstýringu hennar fyrir hönd Landsnets. Tillaga að matsáætlun hefur verið lögð inn til málsmeðferðar hjá Skipulagsstofnun. Allir geta kynnt sér tillöguna og lagt fram athugasemdir. Hægt er að koma skriflegum athugasemdum við tillögu að matsáætlun til Skipulagsstofnunar fyrir 13. febrúar 2009. Hægt er að nálgast eintak af tillögu að matsáætlun á heimasíðu verkefnisins www.sudvesturlinur.is , og heimasíðum Landsnets hf og EFLU Verkfræðistofu.

Landsnet mun kynna matsáætlun á opnum húsum sem haldin verða í Reykjanesbæ þann 6. febrúar í Virkjun kl 15.00 - 19.00, Vogum þann 7. febrúar í Stóru Vogaskóla kl 15.00 - 19.00 og í Hafnarfirði þann 8. febrúar í Haukahúsinu að Ásvöllum kl 15.00 - 19.00.

Framkvæmdirnar í stórum dráttum
Verkefnið, sem fengið hefur vinnuheitið Suðvesturlínur, tekur til meginflutningskerfis raforku frá Hellisheiði að Geithálsi og Hafnarfirð og áfram út á Reykjanes. Undirbúningur hefur staðið yfir frá árinu 2005 og varðar beinlínis 12 sveitarfélög og þar með meirihluta landsmanna.
Meginflutningskerfið á Suðvesturlandi byggist á loftlínum en á nokkrum stöðum er gert ráð fyrir jarðstrengjum vegna tenginga við stórnotendur. Í heildina er um að ræða nýbyggingu á u.þ.b. 123 km af loftlínum og 17 km af endurnýjuðum línum. Nýjar tengingar orkunotenda og virkjana við meginflutningskerfið verða alls 34 km af loftlínum og 33 km af háspennustrengjum í jörðu. Ný tengivirki rísa á Hellisheiði, við Sandskeið, við Hrauntungur sunnan Hafnafjarðar og á Njarðvíkurheiði en tengivirki við Rauðamel verður fjarlægt. Jafnframt er gert ráð fyrir umfangsmiklu niðurrifi á eldri línum, eða samtals 96 km af loftlínum.

Markmið framkvæmdanna er að byggja upp raforkuflutningskerfið á suðvesturlandi til framtíðar svo það geti mætt áformum um orkuflutning á svæðinu, jafnt til atvinnustarfsemi og til almannanota. Núverandi kerfi er nýtt til fulls og annar ekki fyrirsjáanlegri eftirspurn á svæðinu í nánustu framtíð.
Styrking og endurnýjun kerfisins er jafnframt forsenda uppbyggingar af ýmsu tagi í atvinnulífi landshlutans, þar á meðal aukinna umsvifa í orkufrekri atvinnustarfsemi, framleiðslu- og hátækniiðnaði.

Kynningarefni