Þriðjudaginn 30. nóvember kl. 17.30 koma Kristín Steinsdóttir og Guðni Th. Jóhannesson á bókasafnið og kynna bækur sínar, Ljósa og Gunnar Thoroddsen : ævisaga.
Skáldsaga Kristínar fjallar um Ljósu sem elst upp seint á nítjándu öld undir hvelfdum jökli með víðsýni yfir sjó og sanda. Hana dreymir um framtíð þar sem hamingjan ríkir og sólin skín. En veruleikinn ætlar henni annað; þrátt fyrir góð efni og ástríka fjölskyldu vofir yfir henni ógn sem gefur engin grið. Sú ógn er geðsýki sem ágerist eftir því sem tíminn líður
Ljósa, hefur þegar vakið verðskuldaða athygli gagnrýnenda og lesenda. Í dómi Morgunblaðsins um helgina kemur fram að hér sé á ferðinni „…vel skrifuð saga sem kemur við hjartað í lesandanum…“ og gefur rýnirinn Kristín Heiða Kristinsdóttir henni þrjár og hálfa stjörnu. Á Bókmenntavefnum skrifar síðan Úlfhildur Dagsdóttir um söguna og segir hana einkennast af hógværum krafti og vera bæði áhrifamikila og fallega.
Ævisaga Gunnars Thoroddsen eftir Guðna Th. Jóhannesson er að miklu leyti byggð á opinskáum og einlægum einkaheimildum Gunnars, meðal annars dagbókum sem hann færði samviskusamlega frá ungum aldri til æviloka og trúði fyrir sínum innstu hugrenningum. Ævisagan birtir því áhrifamikla mynd af manninum og varpar um leið nýju ljósi á átök og atburði á sögulegum umbrotatímum.
Í dómi Gríms Atlasonar á Miðjunni um bók Guðna segir m.a. „Margar bækur hafa verið ritaðar um stjórnmálaskörunga 20. aldarinnar, lífs og liðna. Bók Guðna um Gunnar Thoroddsen ber af í samanburði við þær flestar. Gunnar Thoroddsen : ævisaga er magnað verk og það er fengur í henni og er öllum sem að henni koma til mikils sóma.“
Kristín og Guðni munu lesa upp úr bókum sínum og svara spurningum áheyrenda í lokin.
Vonast til að sjá ykkur sem flest á bókasafninu næstkomandi þriðjudag, kl. 17.30.