Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja hefur nú fengið niðurstöður úr greiningu nýjustu sýna. Mælingarnar staðfesta að mengunin er lítil, er sögð vera við greiningarmörk þeirrar aðferðar sem notuð er og að jafnframt hafi komið fram sýni þar sem engin mengun mælist.
Í gær, fimmtudaginn 4. september, voru tekin sýni úr dæluhúsi HS Veitna, niðurstöður munu liggja fyrir á mánudag. Þá verður jafnframt ráðgerð ný sýnataka, sem og næstu daga og vikur. Þær varúðarráðstafanir verða viðhafðar áfram jafnvel þótt niðurstaðan eftir helgi verði „hrein“ og með því verða áfram hafðar góðar gætur á ástandi vatnsins.
Íbúar eru því hvattir til að sjóða áfram drykkjarvatnið í varúðarskyni, en fylgjast jafnframt með fréttum á heimasíðu og facebook síðu sveitarfélagsins. Vonandi verða niðurstöður mælinga á mánudag þess eðlis að ekki þurfi lengur að sjóða neysluvatnið.
Við þökkum öllum íbúum sveitarfélagsins góðan skilning á erfiðum aðstæðum og fyrir gott samstarf í þessu máli. Markmiðið er að koma málum eins fljótt og frekast er unnt í gott horf að nýju, þannig að vatnsgæðin í Vogunum verði ávallt í hæsta gæðaflokki.