Grjóthleðsla í gömlum stíl á Suðurnesjum – námskeið í Vogum

Grjóthleðsla í gömlum stíl á Suðurnesjum – námskeið í Vogum. Á námskeiðinu verða hlaðnir frístandandi og fljótandi veggir úr náttúrlegu grjóti. Kennd verða öll grundvallaratriði grjóthleðslu. Nemendur munu læra að hlaða horn og bogaveggi og að „toppa“ grjótvegg. Þetta er að mestu verklegt námskeið og getur orðið töluvert líkamlegt puð!

Nánari upplýsingar um viðfangsefni og tilhögun munu liggja fyrir í lok október. Þeir sem vilja vera með ættu að skrá sig sem fyrst því fjöldi þátttakenda er takmarkaður og þeir sem skrá sig fyrstir njóta forgangs. Einnig er hugmyndin að íbúar í Sveitarfélaginu Vogum hafi forgang að þessu námskeiði.Ef þú ætlar að vera með skaltu fara inn á þessa síðu Miðstöðvar símenntunar og skrá þig sem fyrst hjá MSS.

Verkefnið: Að halda 2 daga grjóthleðslunámskeið í Sveitarfélaginu Vogum

  • Skoða og meta grjóthleðslur í Vogum og á Vatnsleysuströnd, svo sem vörður, túngarða, sjóvarnargarða, fjárborgir, gripahús, sjávarhús og íbúðarhús.
  • Læra að endurhlaða og lagfæra grjótveggi, garða og vörður
  • Lagfæra nokkrar tegundir af hleðslum sem þarfnast lagfæringa
  • Tileinka sér lög, reglur og viðhorf um vernd fornminja
  • Aukin þekking á einkennum, þróun og varðveislu menningarlandslags á Íslandi
  • Virkja og efla fólk til minjaverndar og að halda við gömlum hleðslum
  • Læra að hlaða nýjar  hleðslur í gömlum stíl.
  • Fyrsta námskeiðið – frumraunin – verður í Vogum og þátttakendur þaðan njóta viss forgangs. Ef aðsókn verður góð verði síðar haldin námskeið í fleiri sveitarfélögum á Suðunesjum og njóti heimamenn jafnan forgangs.

Lengd námskeiðs: 2 heilir dagar (2x8 klst.).  Hámark 10 manns í hópi.
Tími: 20. sept. og 18. okt.
Verð: kr. 4.000
Kennari og faglegur skipuleggjandi: Guðjón S. Kristinsson torf- og grjóthleðslumeistari og skrúðgarðyrkjumaður http://simnet.is/stokkarogsteinar 
Skipuleggjandi: Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum (MSS) ina@mss.is
Samstarfsaðilar:  
Sveitarfélagið Vogar
Minjafélag Vatnsleysustrandarhrepps
Fornleifavernd ríkisins
Námskeiðið er styrkt af Menningarráði Suðurnesja. 
   
Um verkefnið
Til forna og allt fram á 20. öld var grjót aðalbyggingarefnið á Suðurnesjum. Gamlar grjóthleðslur setja hvarvetna svip á menningarlandslagið. Hleðslur þessar voru lagfærðar árlega meðan þær voru í notkun og byggingar endurbyggðar reglulega. Eftir að hætt var að viðhalda þessum hleðslum hafa þær gengið mjög úr sér.
Ekki er ætlunin að hreyfa neitt við mjög gömlum hleðslum eða minjum sem eru sérstakar, né heldur að grafa upp fornleifar, heldur að rannsaka og lagfæra hleðslur af algengu tagi sem eru í yngri kantinum og áberandi í landslaginu.
Í góðan tíma fyrir námskeiðið mun hleðslumeistarinn fara um fyrirhuguð athafnasvæði með staðkunnugu fólki og fulltrúa Fornleifaverndar ríkisins og fulltrúum eigenda viðkomandi eigna og velja hvað verður lagfært og hvað verður látið óhreyft.

Mynd: Staðarborg á Vatnsleysustrandarheiði