Greining á áhrifum sameiningar Hafnarfjarðar og Vatnsleysustrandarhrepps



Þann 8. október 2005 fara fram kosningar um sameiningar sveitarfélaga víða
um land. Kosningarnar byggja á lokatillögum nefndar um sameiningu
sveitarfélaga sem félagsmálaráðherra skipaði í desember 2003.
Markmiðið með nefndarstarfinu var að leggja fram tillögur um breytingar á
sveitafélagaskipan með hliðsjón af breytingum á verkaskiptingu hins opinbera
sem miðuðu að því að hvert sveitarfélag myndaði heildstætt atvinnu- og
þróunarsvæði. Lokatillögur nefndarinnar voru birtar í skýrslu sem gefin var
út í mars 2005. Eftir athugun á vilja íbúa Vatnsleysustrandarhrepps kom í
ljós að meiri vilji virtist vera fyrir að sveitarfélagið sameinist
Hafnarfjarðarbæ en öðrum sveitarfélögum á Suðurnesjum þrátt fyrir að
hreppurinn hafi átt umtalsvert samstarf við sveitarfélögin á Suðurnesjum í
gegnum Samtök sveitarfélaga á Suðurnesjum (SSS).

Nefndin ákvað að fylgja niðurstöðum könnunarinnar og lagði til að efnt yrði
til kosninga um sameiningu Hafnarfjarðar og Vatnsleysustrandarhrepps.
Samstarfsnefnd um sameiningu Hafnarfjarðar og Vatnsleysustrandarhrepps lét
ráðgjafafyrirtækið PARX gera greiningu á núverandi stöðu mála í
sveitarfélögunum tveimur, málaflokk fyrir málaflokk, til að leggja grunn að
samanburði og að draga upp mynd af líklegri þróun mála ef af sameiningu
verður.

Niðurstöður voru kynntar í dag og geta íbúar og aðrir sem áhuga hafa á
skoðað skýrsluna á heimasíðum Hafnarfjarðar og Voga eða hér.
Einnig liggur skýrslan frammi á hreppsskrifstofunni í Vogum og
í Þjónustuveri Hafnarfjarðarbæjar.
Við sameiningu sveitarfélaganna Hafnarfjarðar og Vatnsleysustrandarhrepps
yrði til um 23.000 manna sveitarfélag í örum vexti. Heildarflatarmál
sveitarfélagsins yrði 307 km².