Greinargerð um fjárhagsstöðu Sveitarfélagsins Voga

 

 

Á 14. fundi bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Voga var tekin fyrir greinargerð Grant Thornton endurskoðunar um fjárhagsstöðu Sveitarfélagsins Voga.

 

Á fundi bæjarráðs þann 22. ágúst síðastliðinn var endurskoðendafyrirtækinu Grant Thornton falið að gera úttekt á fjárhagsstöðu sveitarfélagsins miðað við 30. júní 2006, þ.e.a.s. við stjórnarskipti. Núverandi meirihluti E- listans lagði áherslu á að fá upplýsingar um hver fjárhagsstaða sveitarfélagsins væri í raun og veru við meirihlutaskiptin og vildi fá óháðan aðila til að leggja mat á rekstrargrundvöll sveitarfélagsins til framtíðar.

 

Tilgangur úttektarinnar var að:

 

  • að veita upplýsingar um fjárhagsstöðu sveitarfélagsins hinn 30. júní 2006. Í því sambandi verði gert árshlutauppgjör sem samanstandi af rekstrarreikningi 1.1. – 30.6. 2006, efnahagsreikningi hinn 30.6. 2006 og sjóðstreymi 1.1. – 30.6. 2006.
  • að meta áreiðanleika þeirra upplýsinga sem settar eru fram í ársreikningi 2005, svo sem hvort um ofmat eigna geti verið að ræða og hvort allar skuldir og skuldbindingar komi þar fram.
  • að meta framtíðar rekstrargrundvöll og greiðsluhæfi sveitarfélagsins miðað við fyrirliggjandi gögn, svo sem rekstraruppgjör og samþykktar fjárhagsáætlanir.

 

Helstu niðurstöður úttektarinnar eru þessar:

 

         Rekstrarniðurstaða samantekins árshlutareiknings A og B hluta fyrir tímabilið 1.1. – 30.6. 2006 sýnir halla upp á 60,4 m.kr. samanborið við 8,9 m.kr. áætlaðan rekstrarafgang. Rekstrarniðurstaðan er því 69,3 m.kr. lakari en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir. Áætlun um tekjur stenst nokkuð vel. Hins vegar fara laun og tengd gjöld um 24% fram úr áætlun og annar rekstrarkostnaður um 14%. Þá fer fjármagnskostnaður verulega fram úr áætlun, meðal annars vegna gengistaps og verðbótahækkana langtímalána umfram það sem gert hafði verið ráð fyrir.  

 

         Veltufé frá rekstri samkvæmt samanteknum árshlutareikningi A og B hluta var neikvætt um 19,9 m.kr. en samkvæmt samþykktri fjárhagsáætlun fyrir árið 2006 var gert ráð fyrir að það yrði jákvætt um 43,3 m.kr. fyrir allt árið. Ef miðað er við 50% af þeirri fjárhæð eða 21,7 m.kr. fyrir hálft árið þá fæst að neikvætt frávik tímabilsins hafi verið 41,6 m.kr.

 

         Heildarskuldir samkvæmt samanteknum efnahagsreikningi 30. júní 2006 námu 613 m.kr. samanborið við 514 m.kr. í árslok 2005. Heildarskuldir hafa því hækkað um 99 m.kr. frá ársbyrjun. Þrátt fyrir sölu Stóru- Vogaskóla og Íþróttamiðstöðvarinnar á síðasta kjörtímabili hafa skuldir sveitarfélagsins þannig ekki lækkað. Heildarskuldir ásamt núvirtum leigusamningum vegna fasteigna þann 30. júní 2006 námu samtals 1.569 m.kr. eða um 1.541 þús. kr. á hvern íbúa miðað við íbúafjölda í árslok 2005.

 

         Veltufjárhlutfall samkvæmt samanteknum ársreikningi þann 30. júní 2006 var 1,1 en var 2,8 í árslok 2005. Greiðslustaða sveitarfélagsins versnaði því verulega á tímabilinu þótt veltufjárhlutfallið í lok þess hafi enn verið lítillega yfir því lágmarksgildi sem talið er æskilegt eða 1,0.

 

         Grant Thornton endurskoðun bendir jafnframt á að árlegar afborganir langtímalána sveitarfélagsins á næstu árum verði ekki undir 50-60 m.kr. miðað við óbreyttan lánstíma þeirra. Við það bætist að leigugreiðslur vegna ofangreindra fasteigna verða að lágmarki 70 milljónir kr. á ári næstu árin. Þótt tekjur sveitarfélagsins muni aukast á komandi árum samfara þeirri íbúafjölgun sem áætluð er, þá er fyrirsjáanlegt að reksturinn muni ekki geta staðið undir núverandi afborgunarbyrði langtímalána og leiguskuldbindinga, jafnvel þótt ekki verði um neinar framkvæmdir að ræða hjá sveitarfélaginu á næstu árum.

 

Það er því ljóst að leita þarf allra leiða til að bregðast við viðvarandi rekstrarhalla og skuldasöfnun þannig að sveitarfélagið geti staðið við skuldbindingar sínar þegar til framtíðar er litið. Á fundi bæjarstjórnar þann 7. nóvember kom fram að meirihluti E- listans í bæjarstjórn er þó fullur bjartsýni og telur mögulegt að ná jafnvægi í rekstri og byggja upp fjölskylduvænt og gott samfélag í Sveitarfélaginu Vogum. Meirihluti bæjarstjórnar óskaði jafnframt eftir góðu samstarfi við bæjarbúa og minnihluta H- listans við þær aðgerðir sem nauðsynlegt er að grípa til.

 

Greinargerðina má nálgast hér.