Glæsilegt umhverfi Vogatjarnar og Aragerðis

Framkvæmdum við umhverfi Vogatjarnar og Aragerði er lokið, að sinni að minnsta kosti. Verkefnið hófst í sumar og lauk framkvæmdum við Aragerðið fyrir Fjölskyldudaginn. Aðkoma í garðinn er orðin mjög skemmtileg, og verður enn meira aðlaðandi þegar tré og annar gróður hefur tekið við sér.

Verkefnið fólst í því að skipt var um jarðveg í garðinum til að koma í veg fyrir mikla vatnssöfnun í garðinum miðjum sem takmarkaði mjög notagildi og skapaða slysahættu. Auk þess var innkoma í garðinn löguð og við það notað klapparberg úr sveitarfélaginu. Þar er nú skemmtilegur áningarstaður með bekkjum og bílastæði fyrir þá sem sækja garðinn heim. Jafnframt var hlaðinn veggur til að koma í veg fyrir að börn renni út á Hafnargötuna þegar þau leika sér á snjósleðum í Arhólnum. 

Í rjóðrinu innst í Aragerði er annar áningarstaður, nokkurskonar auditorium, sem nýtist til kennslu, leikja og viðburða ýmiskonar. Þar er mjög skjólsælt og hægt að grilla á almenningskolagrilli. 

Breytingarnar leiða til þess að Aragerði verður enn betri samkomustaður bæjarbúa en áður var. 

Við Vogatjörn hefur jafnframt verið unnið að framkvæmdum sem miða að því að gera umhverfið meira aðlaðandi og skapa betri aðstæður fyrir fuglalíf í hólmanum. Hólminn var sleginn að hluta í sumar og land hækkað á smáskika, auk þess var haft milli hólma og norðurbakkans rofið til að koma í veg fyrir að kettir komist í hólmann. Næstu sumur verður fylgst með fuglalífinu og metinn árangur þessara aðgerða.
Við norðurbakkann var hlaðinn veggur sem skilur betur að umferð á Hafnargötu og gangandi umferð við tjörnina, samhliða því að gerður var nýr glæsilegur áningarstaður. Sem fyrr  er efnisvalið klapparberg úr sveitarfélaginu. Við áningarstaðinn skapast aðstæður til að setjast niður og njóta suðursólar og fylgjast með mann-og fuglalífi við Vogatjörn.

Með þessum framkvæmdum er haldið áfram því verkefni að gera útivistarsvæði í Vogum aðgengilegri og skemmtilegri. Ganga um göngustíga bæjarins meðfram ströndinni með áningarstaði við listaverkið Íslands Hrafnistumenn, Vogatjörn, innkomu í Aragerði og í rjóðrinu innst í Aragerði ætti að vera á dagskrá allra bæjarbúa og gesta bæjarins. Auk áningarstaðanna má nefna upplýsingaskilti um dýralíf og náttúru í Vogatjörn og fjöru.

Á meðfylgjandi myndum má sjá álftir synda um Vogatjörn að kynna sér svæðið eftir framkvæmdirnar. Hver veit nema þetta séu framtíðaríbúar.

Verkefnin voru unnin í samstarfi við Nesprýði, en hönnun og eftirlit var í höndum arkitektastofunnar Landslags og tækniþjónustu TSÁ.

Í myndasafninu má sjá fleiri myndir af álftunum, en þær tók G. Sverrir Agnarsson.