Þegar nýtt fyrirkomulag almenningssamgangna tók gildi um síðustu áramót var þjónustusvæðið á Suðurnesjum samþætt og samtengt við önnur þjónustusvæði hjá Strætó bs., jafnt á höfuðborgarsvæðinu sem og víða um land. Með þessu móti varð til samræmd gjaldskrá sem byggir á gjaldsvæðum sem einkum fara eftir fjarlægðum á milli staða. Fyrir Suðurnesjamenn sem ferðast með almenningssamgöngum til og frá höfuðborgarsvæðinu fólst breytingin m.a. í því að geta ferðast áfram innan svæðisins á sama fargjaldi, einnig að í nýrri gjaldskrá er boðið upp á tímabilakort sem er hagkvæm lausn fyrir þá sem nýta sér þennan samgöngumáta að staðaldri. Strætó bs. ákvað að hækka gjaldskrá sína í fyrsta skipti frá árinu 2012, og tekur hækkunin gildi nú 1. mars n.k. Bæjarstjórnin í Vogum ákvað á fundi sínum í vikunni að kaupa talsvert magn af almennum farmiðum og selja þá á gamla verðinu meðan birgðir endast, þó ekki lengur en til loka maí 2015. Aðgerðin er til þess fallin að milda áhrif gjaldskrárhækkunarinnar, ekki síst í ljós þess hversu stutt er síðan hið nýja fyrirkomulag tók gildi. Miðarnir verða til sölu á bæjarskrifstofunum og eru einungis ætlaðir íbúum sveitarfélagsins til kaups.