Gjaldfrjálsar skólamáltíðir og frítt í sund fyrir börnin

 

Í upphafi skólaárs felldi bæjarstjórn niður gjaldtöku á börnin vegna skólamáltíða í grunnskólanum og í sundlaugina. Með þessu markar sveitarfélagið nýja braut í þjónustu við barnafólk og hefur sú stefna nú þegar vakið mikla athygli útfyrir bæjarmörkin. Gert er ráð fyrir að sparnaður heimilanna nemi um 30.000 kr. á ári fyrir hvert barn, vegna gjaldfrjálsu skólamáltíðanna. Gefur það fjölskyldum aukið svigrúm til að styðja börn sín í íþrótta- eða tómstundarstarfi auk þess að jafna til muna aðstæður barna í sveitarfélaginu.

 

Vel gengur í mötuneytinu

Ásókn í mötuneytið í Stóru-Vogaskóla hefur verið einkar góð og að sögn matráða þar hefur öll afgreiðsla og undirbúningur máltíða gengið mjög vel. Í mötuneytinu er boðið uppá hollan og næringargóðan mat á hverjum degi. Vonast er til að þessi breyting eigi þátt í að skapa ákveðna matarmenningu í skólanum. Það er vel þekkt að næring og námsárangur haldast í hendur og með góðu skólamötuneyti sem stendur öllum nemendum opið fáum við ánægðari börn.

 

Fræðsla fyrir matráða

Í upphafi skólaárs sóttu matráðar jafnt grunn- og leikskóla fræðslufund hjá næringarráðgjafa. Var sá fundur liður í starfsmenntun matráða. Margt skemmtilegt og áhugavert kom fram á fundinum og var þar lögð rík áhersla á uppeldisgildi skólamötuneyta. Fram kom að í nútíma samfélagi neyti börnin okkar allt að 70% daglegrar fæðu sinnar á skólatíma.

 

Frítt í sund

Nú í byrjun september var gjald á börn og ungmenni yngri en 18 ára í sundlaugina fellt niður. Nú er því frítt í sund fyrir börn, ungmenni, eldri borgara og öryrkja. Sundlaugin okkar er mjög góð og standa vonir til þess að að börn og foreldrar fari í auknum mæli saman í sund og eigi þar ánægjulegar stundir.

 

Aukin þjónusta sveitarfélagsins

Margir íbúar í Vogum hafa óttast að gjaldfrjálsar skólamáltíðir í grunnskólanum komi til með að valda skerðingu á annarri þjónustu. Slíkar áhyggjur eru óþarfar því ekki er ætlunin að skerða þá þjónustu sem sveitarfélagið veitir. Gjaldfrjálsar skólamáltíðir eru í takt við aukna þjónustu sveitarfélaga í landinu við íbúana og eiga margt skylt með niðurgreiðslum á íþróttastarfi sem þekkjast í nágrannasveitarfélögum okkar. Það verður því spennandi að fylgjast með hvort fleiri sveitarfélög taki ekki upp stefnu Voga á næstunni og felli niður gjald á skólamáltíðum grunnskólabarna.