Fyrsta skóflustunga að nýrri verksmiðju Ísaga

Föstudaginn 9. september 2016 var tekin fyrsta skóflustunga að nýrri köfnunarefnis- og súrefnisverksmiðju sem Ísaga ehf. hyggst reisa í Vogum. Skóflustunguna tóku þau Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Vilberg Sigurjónsson, sá starfsmaður Ísaga ehf. sem hefur lengstan starfsaldur, og Ásgeir Eiríksson, bæjarstjóri.

Framkvæmdir munu hefjast fljótlega, en gert er ráð fyrir að verksmiðjan verði tilbúin og hefji starfsemi þann 1. október 2017. Verksmiðjan mun framleiða köfnunarefni og súrefni, en hráefnið er andrúmsloftið sjálft. Útblástur verksmiðjunnar er einungis í formi vatnsgufu. Fjárfesting fyrirtækisins nemur um 2,5 miljörðum króna.

Á meðfylgjandi myndum má sjá þremenningana taka skóflustunguna, sem og hópinn með framkvæmdastjóra Ísaga ehf., Guðmundi K. Rafnssyni. Fagur regnbogi var í baksýn, sem er vonandi fyrirheit um farsæla starfsemi og gott samstarf sveitarfélagsins og Ísaga ehf.

Við bjóðum Ísaga ehf. velkomna með starfsemi sína í Sveitarfélagið Voga.

(Ljósmyndir: Jón Svavarsson).

Ásgeir Eiríksson, Ragnheiður Elín Árnadóttir og Vilberg Sigurjónsson

 

Guðmundur K. Rafnsson, Vilberg Sigurjónsson, Ragnheiður Elín Árnadóttir og Ásgeir Eiríksson