Fyrirlestur um Gunnar Gunnarsson, rithöfund, í Álfagerði í Vogum, miðvikudaginn 8. febrúar kl. 20.

Jón Yngvi Jóhannsson, bókmenntafræðingur, fjallar um ævi Gunnars og verk.

Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir!

Gunnar Gunnarsson var einn af áhrifamestu rithöfundum Íslendinga á tuttugustu öld. Ævi hans var mikið ævintýri, hann fæddist og ólst upp í Fljótsdal og á Vopnafirði við kröpp kjör en fór ungur til Danmerkur þar sem hann settist á skólabekk í lýðháskólanum í Askov. Eftir erfiða baráttu á fyrstu Danmerkurárunum sló Gunnar í gegn sem höfundur í Danmörku og á árunum 1912-1939 var hann meðal virtustu höfunda Norðurlanda og naut mikillar hylli bæði gagnrýnenda og lesenda. Á hátindi ferils síns, þegar Gunnar varð fimmtugur, snéri hann heim og gerðist bóndi í fæðingarsveit sinni á Skriðuklaustri í Fljótsdal.

Í fyrirlestrinum verður fjallað um rithöfundarferil Gunnars og tengsl hans við heimalöndin tvö, Ísland og Danmörku. Einnig verður vikið að einkalífi skáldsins sem var stundum stormasamt. Konurnar í lífi hans voru þrjár, æskuunnustan Anne Marie Pedersen, eiginkona hans Franzisca og barnsmóðir hans, Ruth Lange. Þær koma allar við sögu í fyrirlestrinum enda höfðu þær margvísleg áhrif á líf Gunnars og verk hans.

Fyrirlesarinn, Jón Yngvi Jóhannsson er bókmenntafræðingur og kennir við Háskóla Íslands. Hann hefur lengi fjallað um íslenskar bókmenntir, skrifað greinar og bókarkafla og ritdæmt bækur bæði í sjónvarpi og í dagblöðum. Á síðasta ári sendi hann frá sér sína fyrstu bók, Landnám : ævisögu Gunnars Gunnarssonar.

Fyrirlesturinn er hluti af verkefninu Kynning á bókmenntaarfinum sem almenningsbókasöfnin á Suðurnesjum standa saman að. Verkefnið er styrkt af Menningarráði Suðurnesja.