Nú á dögum var Friðrik V. Árnason útnefndur íþróttamaður ársins í Vogum. Friðrik spilaði stórt hlutverk í liði Þróttar sumarið 2013 og var fastamaður í liðinu. Hann lék 16 leiki af þeim 17 leikjum sem félagið spilaði í 4. deild og í bikarkeppni KSÍ.
Vogamaðurinn Friðrik er 32 ára gamall. Þetta var hans fyrsta tímabil hjá meistaraflokki félagsins þrátt fyrir að hafa leikið með öllum yngri flokkum Þróttar á sínum yngri árum. Hann hefur komið víða við á sínum ferli. Hann var Íslandsmeistari með 2. flokki Keflavíkur árið 1999. Hann var varamarkvörður fyrir Gunnleif Gunnleifsson hjá Keflavík í efstu deild tímabilið 2000. Einnig var hann fastamaður í sigursælu liði Njarðvíkur árin 2003-2005. Hann á að baki fjölmarga leiki fyrir Njarðvík í 3. 2. og 1. deild. Friðrik fór í nám til Danmerkur haustið 2005 eftir að hafa varið mark Njarðvíkinga í nokkur ár. Á þeim tíma æfði hann á sumrin með Þrótti. Hann flutti aftur heim síðast liðið haust eftir að hafa menntað sig í orkugeiranum þar í landi.
Friðrik er ekki bara leikmaður Þróttar því einnig situr hann í stjórn Knattspyrnudeildar félagsins. Friðrik hefur verið bæði félaginu og Sveitarfélaginu til mikils sóma. Er hann í miklum metum hjá stuðningsmönnum sem og leikmönnum félagsins.