Friðarhlaupið kemur í Voga miðvikudaginn 6. júlí kl. 12:00
Á miðvikudaginn kemur friðarhlaupið í Voga. Hlauparar munu hlaupa með friðarkyndil inn í bæinn um kl. 12:00 og hitta síðan íbúa á grasvellinum við íþróttamiðstöðina. Þátttakendum gefst kostur á að prófa að hlaupa með kyndilinn og einnig verður farið í leiki.
Friðarhlaupið (World Harmony Run) er alþjóðlegt kyndilboðhlaup. Tilgangur hlaupsins er að efla frið, vináttu og skilning. Friðarhlaupið hóf göngu sína árið 1987 og hefur nú verið hlaupið í rúmlega 100 löndum síðustu 24 árin.
Það er alþjóðlegt lið sjálfboðaliða sem skipuleggur og sér um að hlaupa með kyndilinn á milli landa. Fólk á öllum aldri og af öllum stéttum og stigum tekur þátt í Friðarhlaupinu hvar sem það stingur niður fæti.
Í ár verður hlaupið hringinn í kringum Ísland, 5.-22. júlí, en þá munu 20 hlauparar frá 13 þjóðlöndum hlaupa með Friðarkyndilinn.
Ísland hefur tekið þátt í hlaupinu frá upphafi. Steingrímur Hermannsson, þáverandi forsætisráðherra, setti fyrsta hlaupið árið 1987 og í lokaathöfninni það árið sameinuðust leiðtogar allra stjórnmálaflokkanna um kyndilinn. Í forsetatíð sinni var Vigdís Finnbogadóttir verndari Friðarhlaupsins.
Talsmaður Friðarhlaupsins er nífaldur gullverðlaunahafi Ólympíuleikanna, Carl Lewis. Meðal annarra sem stutt hafa hlaupið má nefna Nelson Mandela, Móður Teresu, Mikhail Gorbachev og Muhammed Ali.
Friðarhlaupið safnar ekki fé og leitar ekki eftir stuðningi við pólitískan málstað. Markmið hlaupsins er einfaldlega að auka meðvitund um að friður, vinátta og skilningur hefst í hjarta hvers og eins.
Heimasíða hlaupsins er www.worldharmonyrun.org