Fréttir af vettvangi bæjarráðs

Ákveðið hefur verið að selja hlut sveitarfélagsins í HS-Orku. Kaupandi er Magma Energy Sweden A.B. Bæjarstjóra var falið að ganga frá sölunni og endanlegum samningi.
Ákveðið hefur verið að Vogahöfn verði frístundahöfn. Sú ákvörðun felur í sér að ekki verði starfrækt vigt eða að sveitarfélagið hafi löggiltan vigtarmann. Hvorki er hægt að fá afgreidda olíu eða ís við höfnina. Í því ljósi er ákvörðun bæjarráðs formlega staðfesting á fyrirkomulagi sem lengi hefur verið.


Í fundargerðum Brunavarna Suðurnesja er fjallað um sjúkraflutninga á Suðurnesjum.
Samkvæmt lögum sér ríkið um sjúkraflutninga. Síðastliðin ár hafa sveitarfélög þau er standa að BS lagt tugi milljóna ár hvert í sjúkraflutninga. Ef samningar við ríkið um auknar greiðslur nást ekki á næstunni leggur bæjarráð Sveitarfélagsins Voga til að samningi um sjúkraflutninga á Suðurnesjum verði sagt upp. Þrjú sveitarfélög standa að BS, Reykjanesbær, Sveitarfélagið Garður og Sveitarfélagið Vogar.


Nokkuð hefur verið rætt um flutning Landhelgisgæslunnar á Suðurnes. Á fundi ríkisstjórnar er haldinn var á Suðurnesjum í nóvember, 2010 var ákveðið að  skoðaðir yrðu vandlega kostir þess að flytja starfsemi Landhelgisgæslu Íslands á öryggisvæðið á Miðnesheiði á Suðurnesjum og að framkvæmd verði hagkvæmniathugun á þeim kosti. Nú liggur sú athugun fyrir. Af því tilefni vekur bæjarráð Sveitarfélagsins Voga athygli á því að í athugun á hagkvæmni flutninga Landhelgisgæslunnar er Deloitte hf gerði fyrir innanríkisráðuneytið kemur fram að núverandi aðstaða Landhelgisgæslunnar í heild er nógu góð til skemmri tíma en það þyrfti að bæta aðstöðuna til lengri tíma litið, sérstaklega ef áætlanir eru um eflingu starfseminnar. Bæjarráð er fullvisst um að Suðurnes eru góður kostur fyrir Landhelgisgæsluna til framtíðar. Öll aðstaða er nú þegar fyrir hendi. Brýnt er að innanríkisráðherra taki meiri hagsmuni fram yfir minni og stefni að flutningi Gæslunnar þangað sem hún getur þróast áfram.