Unglingar, þeir sem erfa skulu land, úr Kvennaskólanum, munu á morgun kl. 10:00 leggja af stað í hjólastólaakstur frá Fitjum í Reykjanesbæ og aka sem leið liggur til Reykjavíkur. Fulltrúar Bæjanna sem ekið verður um munu taka á móti hópnum og aðstoða við aksturinn eins og hver getur. Árni Sigfússon bæjarstjóri mun fylgja krökkunum úr hlaði og tekur Róbert Ragnarsson bæjarstjóri í Vogum á móti hópnum við Vogaafleggjara.
MND félagið er nemendunum ákaflega þakklátt fyrir dugnaðinn og vonandi munu landsmenn taka þeim vel. En tilgangur þessarar ferðar er þrennskonar. Að safna áheitum til styrktar félaginu, að kynna MND félagið og um leið að vekja fólk til umhugsunar um að fólk í hjólastólum er eðlilegur hluti íslensks samfélags.