Fréttatilkynning. ATVINNA STRAX - KEFLAVÍKURGANGA 2009

ATVINNA STRAX -  KEFLAVÍKURGANGA 2009

HVER ERUM VIÐ?
Við erum hópur Suðurnesjamanna með ólíkar stjórnmálaskoðanir.  Þverpólitískur hópur um velferð og  uppbyggingu á Suðurnesjum.

HVERS KREFJUMST VIÐ?
„ATVINNU STRAX“.  Suðurnesjamenn eru ekki að biðja um að stjórnvöld standi að atvinnubótavinnu, en við óskum eftir því að þau gangi í takt við okkur og greiði leiðir fyrir þeim fjölbreyttu verkefnum sem við  höfum undirbúið á undanförnum árum. Mörg þeirra eru nú þegar tilbúin til að veita þúsundum manna atvinnu og skapa Íslandi auknar gjaldeyristekjur.  Það er krafa okkar að stjórnvöld greiði þessum verkefnum leið og styðji við þau.
HVAÐ ÞARFT ÞÚ AÐ GERA?
Allir Suðurnesjamenn, ungir sem aldnir, fjölskyldur  og vinahópar geta nú sýnt samstöðu með því að  mæta í Keflavíkurgönguna 2009 sem haldin verður sunnudaginn 8. nóvember nk. kl 11:30. Gengið verður frá Vogaafleggjara að Kúagerði sem er um 10 km leið.
Stutt ávarp verður kl. 14:00 í gryfjunni í Kúagerði.  Þar munu forsvarsmenn allra stjórnmálaflokka mæta okkur á miðri leið og taka við áskorun okkar.  Rútuferðir að Vogaafleggjara verða frá öllum sveitarfélögum kl. 11 og þeir sem ekki treysta sér til að ganga geta áfram setið í rútum eða komið á bílum og mun bílalest fylgja göngunni.   Hægt verður að komast inn í gönguna hvenær og hvar sem er á meðan á göngunni stendur.  Einnig verður hægt að keyra beint að vegamótum inn á Vatnsleysuströnd og aka afleggjarann að Keili, að fundarstað.
Samtaka Suðurnesjamenn -  ATVINNU STRAX – KEFLAVÍKURGANGA 2009.
Ýmsar upplýsingar:
• Gangan er fyrir alla Suðurnesjamenn á öllum aldri.  Fjölskyldufólk mæti með alla fjölskylduna.
• Rútuferðir.  Lagt verður af stað kl. 11 frá:
o Garði (Pósthús)
o Sandgerði (Bensínstöðin)
o Reykjanesbæ (Reykjaneshöllinn)
o Grindavík (Festi)
o Ásbrú (Keilir)
• Gangan leggur af stað kl. 11:30 frá Vogaafleggjara
• Gengnir um 10 km að Kúagerði
• Rútur og bílar fylgja göngunni fyrir þá sem ekki ganga
• Stuttur fundur í gryfjunni í Kúagerði sem hefst kl. 14:00
• Dagskrá fundarins er stutt og samanstendur af  ávarpi fulltrúa atvinnulausra á Suðurnesjum, tónlist og afhendingu áskorunar
• Fundurinn er haldinn í samráði við lögreglu., Lögð verður áhersla á að loka ekki Reykjanesbraut þar sem einungis önnur akreinin í norður verður lokuð í þágu göngunnar.