Frá Þrótti

Ungmennafélagið Þróttur  og Landsbankinn hafa framlengt samning sinn til eins árs, en skrifað var undir samninginn í íþróttahúsinu í Vogum um helgina. Það voru Einar Hannesson útibússtjóri Landsbankans og Tinna Hallgríms framkvæmdastjóri Þróttar sem undirrituðu samninginn síðastliðinn laugardag. Líkt og síðustu ár er Landsbankinn stærsti samstarfsaðili félagsins að sveitarfélaginu undanskildu. Landsbankinn hefur lagt áherslu á að vera í góðum tengslum við íþróttahreyfinguna á Suðurnesjunum. Með endurnýjun samningsins vill Landsbankinn sýna í verki áhuga sinn og stuðning við æskulýðs- og íþróttamál og um leið leggja áherslu á forvarnarþátt þess starfs.  Einnig fellur samningurinn vel að markmiðum Landsbankans hvað varðar stuðning við íþrótta- og forvarnarstarfsemi með sérstakri áherslu á barna- og unglingastarf.

Þennan sama dag fór fram aðalfundur knattspyrnudeildar/meistaraflokks. Og er skemmst frá því að segja að tæplega 100.000 kr hagnaður varð á rekstri deildarinnar rekstrarárið 2012.
Marteinn Ægisson formaður knattspyrnudeildar bauð gesti velkomna á fundinn og stakk upp á Gunnari Helgasyni sem fundarstjóra og Þóri Haukssyni sem fundarritara. Gunnar tók síðan við fundarstjórn og fór yfir dagskrá fundarins og gaf að því búnu orðið til Marteins formanns stjórnar, sem flutti skýrslu stjórnar fyrir liðið ár. Marteinn Ægisson fór vítt og breitt yfir sviðið hjá deildinni á liðnu starfsári.

Stjórnarkjör:
Marteinn Ægisson var endurkjörinn formaður deildarinnar. Tinna Hallgrímsdóttir var kosin gjaldkeri, Gunnar Helgason varaformaður og Friðrik V. Árnason  meðstjórnandi.
Ekki voru nein mótframboð. Þórir Hauksson og Hannes Smárason gáfu ekki kost á sér að nýju. Þökkum við þeim fyrir vel unnin störf.

 

 



Á myndinni, frá vinstri: Marteinn Ægisson , formaður meistaraflokksráðs, Einar Hannesson útibússtjóri í Reykjanesbæ,Tinna Hallgríms framkvæmdastjóri Þróttar og Svanborg Svansdóttir þjónustufulltrúi hjá Landsbankanum í Reykjanesbæ.