Frá Safnahelgi á Suðurnesjum

Safnahelgi á Suðurnesjum var haldin helgina 9. – 10. mars. Safnahelgin er orðin fastur liður í menningarlifi á Suðurnesjum og í ár var fjölbreytt dagskrá að venju. Hér í Vogunum var boðið upp á dagskrá í bókasafninu en þar lásu rithöfundar upp úr bókum sínum, nemendur Stóru Vogaskóla lásu upp og nemendur Tónlistarskólans í Vogum fluttu tónlist. Í íþróttamiðstöðinni var zumba á laugardagsmorgninum og frítt í sund allan laugardaginn.

Skólasafnið í Norðurkoti á Kálfatjörn var opið á sunnudeginum og þar var hægt að fræðast um skólagöngu barna í Vatnsleysustrandarhreppi. Í Tjarnarsalnum voru sýnd nokkur einkasöfn í eigu bæjarbúa. Það voru safn af gestabókum af Keili, göngustafa- og hattasafn, safn af pony hestum, pennasöfn, viskísöfn og sýndar voru gamlar tölvur. Nemendur 10. bekkjar gerðu einnig skemmtilegt myndband með viðtölum við eigendur safnanna.

Sveitarfélagið bauð upp á kaffi, djús og vöfflur og sáu eldriborgarar í Vogum um að það kæmist allt til skila. Aðsókn að þessum viðburðum var góð en áætlað er að samtals hafi heimsóknir á viðburðina verið um 400. Nánari upplýsingar um helgina og fleiri myndir frá henni má nálgast á www.safnahelgi.is.