Frá hestamönnum í Vogum

Merkingar sem banna umferð mótorhjóla og fjórhjóla hafa verið settar upp við reiðveginn sem liggur frá hesthúsahverfinu í Fákadal og meðfram Stapagötu.  Borið hefur á því að vélhjólafólk noti reiðveginn.  Við það losnar yfirborð hans og hann verður hestum þungfær auk þess sem mikil hætta skapast vegna hávaða.

Hestar eru í eðli sínu villtar skepnur, en hafa verið tamdir og hlýða bendingum knapans.  Ef hestar hræðast, eins og gerist gjarnan við óvænt og hávær mótorhljóð, kemur flóttaeðli þeirra fram og getur haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar.

Börn og fullorðnir stunda hestamennsku í Vogum og á Vatnsleysuströnd.  Öryggi er þeim ofarlega í huga.  Þess vegna er þeim vinsamlegu tilmælum beint að vélhjólafólki að það sneiði framhjá reiðvegum í sveitarfélaginu og noti akvegi sem sjaldan eru langt undan og ætlaðir eru vélknúnum farartækjum.