Frá aðalfundi ungmennafélagsins Þróttar

Aðalfundur Ungmennafélagsins Þróttar var haldinn í félagsmiðstöðinni í gærkvöldi (7. mars 2014). Farið var yfir skýrslu stjórnar, ársreikningur lagður fram til samþykktar og kosið í stjórn. Svava Arnardóttir bauð sig aftur fram til formanns og var það samþykkt samhljóða. Íris Pétursdóttir og Guðmann Rúnar Lúðvíksson eru einnig áfram í stjórn. Ekki tókst að manna stjórn að fullu annað árið í röð og var stjórnarmeðlimum falið það verkefni að finna áhugasama einstaklinga til þess að vinna með stjórninni. Þrátt fyrir fámenna stjórn hefur stjórnin ásamt framkvæmdastjóra unnið vel saman.

 

Umræður hafa verið málefnalegar á stjórnarfundum og er starfsandinn þar mjög góður. Helga Guðrún Guðjónsdóttir, formaður UMFÍ, forfallaðist á síðustu stundu en fundurinn var ágætlega sóttur og voru umræður málefnalegar. Metnaðarfullt starf er unnið í öllum deildum, fjöldi barna og unglinga leggja stund á íþróttir hjá okkur, eina eða fleiri. Iðkendur Þróttar í barna- og unglingadeild eru tæplega 130 talsins. Fjórar deildir eru reknar, júdó, sund, körfubolti og knattspyrna. Einnig stendur félagið fyrir íþróttaskóla fyrir yngstu krílin einu sinni í viku. Fundargestir voru almennt jákvæðir og voru þeir einróma sammála því að stjórn Þróttar væri að gera góða hluti og ætti að vera sátt við starfsárið 2013.