Forvarnarfræðsla fyrir nemendur og foreldra

Hættu áður en þú byrjar er forvarnarfræðsla sem Maríta á Íslandi hefur boðið skólum á Íslandi uppá til margar ára. Fræðslufulltrúi verkefnisins heimsótti nemendur í 7.-10.bekk síðastliðinn mánudag og fræddi þá um skaðsemi fíkniefna. Þeir fengu að sjá myndbandið „Hættu áður en þú byrjar“ en í því er áhersla lögð á mikilvægi þess að það sem nemendum finnst vera saklaust fikt er í reynd hættulegasta skrefið sem nemendur geta tekið. Því sé mikilvægt að ákveða sig strax að prófa ekki að reykja, drekka eða fikta með fíkniefni þrátt fyrir að einhverjir telji þeim trú um að það sé skaðlaust. Nemendur voru áhugasamir og tóku virkan þátt í umræðum.  Foreldrafundur var haldinn um kvöldið og sóttu hann tuttugu foreldrar.

Á fundinum ræddi fræðslufulltrúi Marita á Íslandi Magnús Stefánsson við foreldra sem fengu innsýn inn í þá fyrirlestra sem fluttir voru fyrir nemendur um morguninn. Einnig fjallaði hann um hið mikilvæga hlutverk sem foreldrar gegna í forvarnarmálum barnanna. Farið var yfir tékklista yfir einkenni sem foreldrar geta horft eftir hafi þeir grun um að barn þeirra sé að fikta við eitthvað sem það á ekki að vera að fikta við. Fulltrúi frá bindindishreyfingunni I.O.G.T á Íslandi, Aðalsteinn Gunnarsson tók þátt í fræðslunni og kynnti fyrir foreldrum áætlunina Sterk og viðbúin sem er verkfæri fyrir foreldra sem byggir á því að foreldrar og forráðamenn séu mikilvægasti hlekkurinn í forvarnarstarfinu. Áætlunin sterk og viðbúin er liður í að styrkja foreldra í því að fá unglinginn til að slá því á frest að hefja neyslu áfengis og gera áætlun um forvarnir á heimilinu í samstarfi við unglinginn.

Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér fræðsluna frá Maríta geta farið inn á www.marita.is og skoðað upplýsingar til foreldra (linkur efst á síðunni). Á síðunni er að finna símanúmer fræðslufulltrúa sem foreldrar geta hringt í hafi þeir einhverjar fyrirspurnir varðandi fræðsluna. Einnig er hægt að lesa meira um áætlunina Sterk og viðbúin á heimasíðu IOGT á Íslandi www.iogt.is.