Forvarnardagurinn 2008

Forvarnardagurinn fór fram um allt land fimmtudaginn 6. nóvember. Í Vogunum var dagskrá hjá 8.-10. bekk um morguninn og opinn dagur seinni partinn í Íþróttamiðstöðinni þar sem Ungmennafélagið Þróttur, Golfklúbbur Vatnsleysustrandar, Björgunarsveitin Skyggnir og Félagsmiðstöðin Boran kynntu starfsemi sína.

Dagskráin í Stóru-Vogaskóla byrjaði með ávarpi Svövu Bogadóttur skólastjóra. Ungmennafélagið Þróttur kynnti starfsemi sína og horft var á myndband með forvarnarboðskap frá nokkrum landskunnum einstaklingum. Unglingarnir unnu síðan í umræðuhópum þar sem rætt var um málefni sem tengjast samveru fjölskyldunnar og mikilvægi hennar í forvörnum. Að síðustu hélt allur mannskapurinn í Íþróttamiðstöðina þar sem farið var í leiki og endað á smá hressingu í boði Þróttar.
 
Opinn dagur í Íþróttamiðstöðinni tókst mjög vel. Mikill fjöldi fólks lagði leið sína í húsið til að kynnast starfsemi Þróttar, GVS, Skyggnis og Borunnar. Foreldrar og börn þeirra voru dugleg að koma saman. Fólk prófaði m.a. ýmsar íþróttir í íþróttasalnum, tók snúning í júdó, æfði golfsveifluna, fékk far á fjórhjóli og kannaði getuna á poolborðinu. Katrín Jónsdóttir og Edda Garðarsdóttir úr íslenska landsliðinu sem nýlega tryggði sér sæti í úrslitakeppni EM í knattspyrnu kíktu í heimsókn ásamt Guðmundi Steinarssyni markahrópi frá Keflavík. Voru þau þrjú umsetin og voru óspör á eiginhandaáritanir fyrir unga aðdáendur. Opni dagurinn sýndi að það er svo sannarlega kraftur í íþrótta- og tómstundastarfsemi í Vogunum.

Sjá myndir frá deginum hér