Fornminjar – menningarverðmæti í hættu

 

 

Vatnsleysustrandarhreppur á sér merka sögu. Hér var um aldir þétt byggð sjávarbúskapar með ströndinni og yfir veturinn voru íbúar stundum fleiri en nú. Þessi saga er þó aðeins að litlu leyti skráð á pappír enn sem komið er. Hún er aðallega varðveitt í fornminjum af ýmsu tagi. Talsvert af þessum fornminjum er í hættu, ýmist vegna ágangs sjávar eða mannvirkjagerðar.

Í 9. grein þjóðminjalaga sem tóku gildi 2001 segir: Minjar 100 ára og eldri teljast til fornleifa, en heimilt er þó að friðlýsa yngri minjar.

Í sömu grein laganna er skilgreint hvað eru fornminjar. Þar segir m.a. 

Til fornleifa teljast hvers kyns leifar fornra mannvirkja og annarra staðbundinna minja sem menn hafa gert eða mannaverk eru á, svo sem:  búsetulandslag, byggðaleifar, bæjarstæði og bæjarleifar ásamt tilheyrandi mannvirkjum og öskuhaugum … leifar af verbúðum, naustum, leifar af seljum, verstöðvum, bólum, mógröfum, … gömul tún- og akurgerð … og leifar eftir veiðar til sjávar og sveita;  gamlir vegir …varir, hafnir og bátalægi … vörður og vitar  brunnar, uppsprettur, álagablettir … áletranir …  skipsflök eða hlutar úr þeim.
Það sem hér er talið upp er til staðar í okkar sveitarfélagi.

Skráningu þessara fornminja hefur lítið verið sinnt fyrr en nú að fyrr á þessu ári kom út skýrslan Menningarminjar í Vatnsleysustrandarhreppi eftir Sædísi Gunnarsdóttur, útgefin af Fornleifastofnun Íslands. Skýrslan er þáttur í undirbúningi nýs aðalskipulags fyrir Sveitarfélagið Voga. Skýrslan er 170 þéttprentaðar síður. Þar er almennur fróðleikur um fornminjar og skráningu þeirra, en einkum þó skrá yfir u.þ.b. 1300 fornminjar á 39 jörðum.

Skýrsla þessi er einungis unnin upp úr rituðum heimildum. Má þar nefna örnefnaskrár, jarðabækur, jarðabréf, túnakort og bækur Árna Óla, Guðmundar Björgvins og Sesselju Guðmundsdóttur.

Skýrsla þessi er forsenda að næsta skrefi í skráningu og rannsóknum fornminja okkar, en það eru vettvangsathuganir. Slík athugun er mun tímafrekari og dýrari og verður unnin í mörgun áföngum. Brýnast er að bjarga þeim fornminjum sem sjórinn er að taka, t.d. undir Stapanum, við Atlagerðistangavita, Kálfatjörn, Litlabæ og Bakka og víðar. Meta þarf hverjar þessara rústa séu svo dýrmætar að rétt sé að verja þær með brimvarnargörðum, en Siglingamálastofnun tekur m.a. þátt í kostnaði við slíkar varnir. Eins þarf að rannsaka vel þau svæði sem taka á undir byggð og mannvirki. Nú er ekki lengur heimilt að gera deiliskipulag nema að undangenginni fornminjaskráningu. Við hönnun tvöföldu Reykjanesbrautarinnar var gerð sérstök skýrsla yfir fornminjar við hana og einnig við deiliskipulag Grænuborgarhverfis. Nú þarf einnig að skrá fornminjar þar sem ætlunin er að byggja brimvarnargarða.

Fornleifavernd ríkisins sér um skráningu fornminja um land allt og hefur eftirlit með þeim. Svo heppilega vill til að einn starfsmaður þeirrar stofnunar, Agnes Stefánsdóttir, er flutt í Voga og er öll að vilja gerð til að verða okkur að liði við að kortleggja þann menningaarf sem í fornminjum okkar felst.

Ég hvet íbúa Sveitarfélagsins Voga til að verða sér úti um skýrsluna Menningarminjar í Vatnsleysustrandarhreppi og kynna sér vel efni hennar. Hún er til á bókasafninu okkar í Stóru-Vogaskóla (Lestrarfélaginu Baldri) og fæst keypt hjá Fornleifastofnun Íslands í Reykjavík. Ég bendi einnig á þann möguleika að ljósrita fáeinar síður úr skýrslunni um það svæði sem viðkomandi þekkir best. Staðkunnugir gætu unnið mikið gagn með því að grandskoða “sitt svæði” og koma á framfæri leiðréttingum og athugasemdum.

 

Þorvaldur Örn Árnason, formaður umhverfisnefndar.