Samgöngustofa upplýsti sveitarfélagið á dögunum um að beiðni hefði borist frá Icelandair um flugprófanir í Hvassa-hrauni. Tilgangurinn er að meta veðuraðstæður í aðflugi að ímynduðum flugvelli í Hvassahrauni. Hannaðir hafa verið flugferlar að þremur flugbrautum, sem Icelandair hyggst fljúga aðflug að. Í þessum flugprófunum felst að flogið verður allt niður í 500 feta hæð sem samsvarar um 152 metra hæð yfir jörðu. Samkvæmt upplýsingum Samgöngustofu verður flugið framkvæmt í fullu samræmi við gildandi flugreglur en ljóst að þotum Icelandair verður flogið í lægri flughæðum en vant er á þessu svæði.
Sem kunnugt er var niðurstaða hinnar s.k. Rögnunefndar á sínum tíma sú að flugvöllur í Hvassahrauni væri vænlegasti kosturinn fyrir nýjan innanlandsflugvöll í jaðri höfuðborgarsvæðisins, kæmi til þess að Reykjavíkur-flugvöllur yrði aflagður í núverandi mynd.