Fjölsótt og vel heppnuð Safnahelgi

Safnahelgi var haldin á Suðurnesjum 15. – 16. mars. Þar var fjölbreytt menningardagskrá í boði um öll Suðurnes. Í Vogum var mikið um að vera. Má þar nefna að Lestrarfélagið Baldur stóð fyrir dagskrá frá kl. 13:00 – 15:00 í bókasafni  Stóru-Vogaskóla. Þar kom Hrafnhildur Valgarðsdóttir og las upp úr bók sinni Söngur Súlu. Jón Kalman Stefánsson las síðan upp úr bók sinni Fiskarnir hafa  enga fætur. Rúsínan í pylsuendanum var svo þegar strengjasveit starfsfólks Stóru-Vogaskóla lék á Ukulele. Boðið var upp á kaffi og kleinur og mætti mikill fjöldi gesta. Góð stemning var og naut fólk dagsins.
Því næst var haldið í Álfagerði þar sem Kristborg Þórsdóttir, fornleifafræðingur, kynnti í máli og myndum Áfangaskýrslu II um fornleifaskráningu í sveitarfélaginu Vogum. Annar áfangi nær yfir Hlöðunes-, Ásláksstaða- og Vatnsleysuhverfin, frá fjöru til fjalla.
Birgir Þórinsson og Helga Ragnarsdóttir kynntu merkilegt starf Minja- og sögufélags Vatnsleysustrandar í máli og myndum auk þess sem nokkrir gamlir munir voru til sýnis.
Haukur Aðalsteinsson sagði frá rannsóknum sínum á sögu jarða í Sveitarfélaginu, alveg frá elstu heimildum, t.d. hvernig stærð þeirra var ákvörðuð og áhrif sem mikil sjávarflóð á 18. öld höfðu. Að endingu skýrði Þorvaldur Örn Árnason frá verkefninu Sagan lifnar á vefnum, sem styrkt er af Menningarráði Suðurnesja og gefur sýnishorn af gömlum kvikmyndum sem settar verða á vefinn. Mikil ánægja var einnig með dagskrána í Álfagerði og sýndi fjöldi gesta að margir höfðu áhuga á þeim erindum sem þar voru flutt.
Meðfylgjandi eru nokkrar myndir frá umræddri dagskrá.

Smelltu hér til að sjá myndir