Fjölskyldudagurinn í Vogum var haldinn hátíðlegur laugardaginn 9. ágúst síðastliðinn í blíðskaparveðri. Dagskráin var fjölbreytt og mátti finna eitthvað við allra hæfi, enda markmið hátíðarinnar að allir meðlimir fjölskyldunnar skemmti sér saman.
Dagskráin hófst með hinni árlegu dorgveiðikeppni sem var sérstaklega vel sótt og allar bryggjur fullar af fólki. Greinilegt er að veiðimennskan sameinar alla fjölskylduna. Fjölbreytt dagskráin hélt áfram allan daginn og fram undir miðnætti með ýmsum skemmtunum og viðburðum.
Forsetahjónin, þau hr. Ólafur Ragnar Grímsson og frú Dorrit Moussaieff heimsóttu Voga og afhjúpuðu við hátíðlega athöfn listaverkið Íslands Hrafnistumenn eftir Erling Jónsson listamann. Að athöfn lokinni héldu forsetahjónin á hátíðarsvæðið í Aragerði og nutu veitinga Kvenfélagsins Fjólu í veðurblíðunni með Vogabúum.
Kvölddagskráin hófst með hverfagrilli, en öll hverfin stóðu sig vel við að skreyta hús sín í litum síns hverfis. Hverfagrillið hefur reynst góður vettvangur fyrir nýja nágranna til að kynnast betur. Að loknu grilli héldu hverfin fylktu liði inn í Aragerði þar sem Hverfaleikarnir fóru fram og vann Gulahverfið annað árið í röð.
Mikil og góð stemning myndaðist í Aragerðinu um kvöldið, en meðal skemmtikrafta voru evróvisjónfararnir í Eurobandinu. Dagskránni lauk á miðnætti með flugeldasýningu Björgunarsveitarinnar Skyggnis.
Skipulag og framkvæmd hátíðahaldanna var í höndum starfsfólks félagsmiðstöðvarinnar og tæknideildar, UMFÞ, Kvenfélagsins Fjólu, Lionsklúbbsins Keilis, Björgunarsveitarinnar Skyggnis og Goflklúbbs Vatnsleysustrandar. Kunnum við þeim og styrktaraðilum hátíðarinnar bestu þakkir fyrir vel unnin störf.
Í myndasafninu má finna fjölda mynda frá Fjölskyldudeginum 2008. Ljósmyndari G. Sverrir Agnarsson.
Fjölskyldudagurinn 2008.