Fjárhagsáætlun ársins 2007

 

 

Á fundi bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Voga þann 9. janúar var ný fjárhagsáætlun ársins samþykkt. Samhliða var rammaáætlun fyrir árin 2008-2010 lögð fram til fyrri umræðu.

 

Í áætlununum birtist sú stefna að vinna að áframhaldandi uppbyggingu sveitarfélagsins ásamt því að halda uppi góðri þjónustu við íbúana og hlúa vel að skólum og umhverfinu.

 

Áætlað er að tekjur í heild aukist um 9,5% á árinu 2007. Leitast er við að almennur rekstrarkostnaður annar en laun aukist ekki umfram nauðsynlegar breytingar vegna verðbólguáhrifa, magnaukningar í rekstri og framlaga. Til þess að þetta markmið náist þarf áfram að vera virkt aðhald í rekstri allra stofnana.

 

Atvinnuástandið í sveitarfélaginu hefur verið gott undanfarin misseri, en þann 18. desember voru 10 skráðir atvinnulausir í sveitarfélaginu.

 

Samkvæmt bráðabirgðatölum um fjölda íbúa 1. desember 2006 eru 1106 íbúar í Sveitarfélaginu Vogum, samanborið við 1018 þann 1. des 2005. Íbúum hefur því fjölgað um 9,2%, en gert er ráð fyrir að íbúum fjölgi um 100 manns á árinu 2007, eða um önnur rúm 9%. Þannig er gert ráð fyrir að íbúafjölgun verði áfram langt umfram landsmeðaltal. 

 

Fasteignamat ríkisins hefur gefið út nýtt fasteignamat sem er grundvöllur fasteignaskatta ársins 2007. Matsverð atvinnuhúsa og atvinnuhúsalóða, sumarhúsa og sumarhúsalóða, svo og matsverð bújarða ásamt íbúðarhúsum og útihúsum á bújörðum og matsverð hlunninda hækkar um 10%. Matsverð íbúðarhúsa og íbúðarlóða hækkar um 15%.

 

Skatttekjur og aðrar tekjur:

Ekki eru áætlaðar breytingar á álagningarprósentum á árinu 2007. Álagningarprósenta útsvars er 13.03%. Gert er ráð fyrir að útsvarstekjur verði kr. 280.408 þús. Álagningarprósentur fasteignaskatts verða óbreyttar á árinu 2007 frá því sem var á árinu 2006, þ.e. 0,3% á A-hluta fasteigna og 1,5% á C-hluta fasteigna. Tekjur af fasteignaskatti eru áætlaðar kr. 34.615 þús. Framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga eru áætluð kr. 124.811 þús. og er miðað við sömu forsendur og síðustu ár. Lóðarleiga er áætluð kr. 8.545 þús. Reiknað er með að aðrar tekjur verði kr. 88.744 þús.

 

Rekstrargjöld:

Gert er ráð fyrir að rekstrarkostnaður við íþrótta- og æskulýðsmál hækki sérstaklega í kjölfar opnunar nýrrar viðbyggingar við íþróttamiðstöð sem tekin verður í notkun í haust. Þar mun félagsmiðstöð og frístundaskóli verða til húsa. Auk þess er gert ráð fyrir að rekstrarkostnaður félagsmála hækki sérstaklega vegna reksturs á Stórheimili fyrir eldri borgara sem opnað verður seinni hluta ársins.

 

Rekstrargjöld sveitarfélagsins í heild sinni, fyrir fjármagnsgjöld, eru áætluð kr. 501.869 þús. eða 101% af áætluðum heildartekjum ársins 2007 sem eru kr. 499.251 þús. Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsgjöld er því áætluð neikvæð kr. 2.618 þús. kr. Rekstrarniðurstaða með fjármagnsgjöldum er áætluð neikvæð kr. 40.771 þús. kr. Veltufé frá rekstri er áætlað að verði kr. 70 þús.

 

Fjárfestingar:

Helstu framkvæmdir á árinu 2007 verða áframhaldandi uppbygging viðbyggingar við íþróttamiðstöð og Stórheimili fyrir eldri borgara sem tekin verða í notkun á árinu. Þá standa yfir og verður framhaldið umhverfis- og gatnagerðarframkvæmdum fyrir vel á annan tug millóna kr. Um er að ræða framkvæmdir á nýbyggingarsvæðum í Dalshverfi, Akurgerði og við íþróttamiðstöðina.

 

Lántaka og greiðslubyrði lána:

Stefnt er að því að efla lausafjárstöðu bæjarsjóðs með það að markmiði að þörf fyrir skammtímafjármögnun með yfirdráttarlánum minnki og fjármagnskostnaður haldist með því í lágmarki.

 

Greiðslubyrði lána er reiknuð út frá stöðu langtímalána og skilmálum sem á þeim eru. Stefnt er að því að endurfjármagna og skuldbreyta lánum á næsta ári til að lækka greiðslubyrði og ná fram hagstæðari vaxtaprósentum. Auk þess er gert ráð fyrir að tekið verði lán að fjárhæð 110 milljónir kr. til að fjármagna rekstrarhalla ársins, fjárfestingar og til að greiða upp skammtímaskuldir vegna ársins 2006.

 

Samtals er greiðslubyrði vegna langtímaskulda með fjármagnsgjöldum áætlaðar 44.815 þús. kr. eða um 9% af áætluðum heildartekjum ársins. Leigugreiðslur vegna rekstrarleigu á húsnæði eru áætlaðar 66.155 þús. kr. eða um 13% af áætluðum heildartekjum ársins.

 

Meginstefna fjárhagsáætlunar 2007:

Gert er ráð fyrir halla á rekstri sveitarfélagsins árið 2007. Síðustu ár hefur verið hallarekstur á reglulegri starfsemi, þ.e. fyrir sölu eigna. Brýn nauðsyn er á því að snúa þeirri þróun við og er með þessari áætlun stefnt að bata í rekstrarniðurstöðu sveitarsjóðs, þó svo enn verði rekstrarhalli. Þetta er í samræmi við þá meginstefnu sem sett er fram með 3ja ára áætlun sveitarfélagsins fyrir árin 2008 – 2010. Sú áætlun er lögð fram til fyrri umræðu samhliða fjárhagsáætlun ársins 2007.

 

Samkvæmt þeirri áætlun er stefnt að því að ná fram hallalausum rekstri og auknu veltufé frá rekstri, þannig að á árunum 2008- 2010 verði ekki tekin ný lán til rekstrar. Svo það markmið náist verður að beita miklu aðhaldi í rekstri sveitarfélagsins næstu árin. Um leið er stefnt að því að veita íbúum lögbundna og valkvæða þjónustu sem stenst samanburð við hvaða sveitarfélag sem er, þannig að íbúaþróun verði áfram jákvæð og tekjur aukist.

 

Áætlunin ber þess merki að stefnan er að byggja upp fjölskylduvænt samfélag í Sveitarfélaginu Vogum. Sú stefna kemur meðal annars fram með gjaldfrjálsum skólamáltíðum og tvöföldun niðurgreiðslna til dagforeldra. Markmið þeirrar aðgerðar að gera dagmæðraþjónustu að raunhæfum valkosti við leikskóla, og þar með draga úr þrýstingi á yngstu deild leikskólans.

 

Útgjöld til málefna aldraðra, félagsþjónustu, æskulýðs- og íþróttamála og fræðslumála vaxa umtalsvert og munu íbúar sveitarfélagsins áfram búa við góða þjónustu. Hátt þjónustustig er forsenda þess að íbúum líði vel í sveitarfélaginu, og þar með fyrir áframhaldandi uppbyggingu og fólksfjölgun í sveitarfélaginu.