Fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Voga fyrir árið 2008 var samþykkt við seinni umræðu í bæjarstjórn þann 18. desember síðastliðinn.
Fjárhagsáætlunin ber þessi merki að viðsnúningur er að verða á rekstri sveitarfélagsins. Gert er ráð fyrir að rekstrarniðurstaða verði jákvæð um rúmar 58 milljónir króna og að veltufé frá rekstri verði rúm 86 milljónir, eða um 15,6% af heildartekjum. Svigrúm til fjárfestinga hefur þannig aukist mikið.
Gert er ráð fyrir fjárfestingum fyrir um 250 milljónir. Stærsta fjárfestingin verður í framkvæmdum við gatnagerð og lagningu veitna á miðbæjarsvæði, en auk þess er gert ráð fyrir framkvæmdum við útivistarsvæði, gangstétta og stíga.
Tekjur vegna gatnagerðargjalda eru áætlaðar um 90 milljónir króna árið 2008.
Stofnaður hefur verið sérstakur sjóður um þá fjármuni sem sveitarfélagið fékk við sölu á hlut sínum í Hitaveitu Suðurnesja og hefur hann fengið vinnuheitið Framfarasjóður. Gert er ráð fyrir framlagi frá Framfarasjóði til reksturs og fjárfestinga að fjárhæð 80 milljónir á næsta ári.
Þrátt fyrir verulega auknar tekjur og betri rekstrarniðurstöðu er gert ráð fyrir nýrri lántöku að fjárhæð 130 milljónir vegna fjárfestinga í gatnagerð.
Eignir sveitarfélagsins hafa aukist gríðarlega við sölu á hlut þess í HS hf. Eignir eru nú rúmir 2 milljarðar króna, samanborið við um 700 milljónir króna í árslok 2006. Eignir á íbúa eru þá um 1.700 þúsund kr.
Skuldir og skuldbindingar eru 700 milljónir, en árinu 2007 var minna um lántöku en áætlað var í fjárhagsáætlun. Skuldir á hvern íbúa eru þá rúmlega 500 þúsund kr.
Samhliða afgreiðslu fjárhagsáætlunar var samþykkt ný þriggja ára rammaáætlun fyrir árin 2009- 2011. Í henni er gert ráð fyrir áframhaldandi vexti sveitarfélagsins með tilheyrandi framkvæmdum. Meðal annars er gert ráð fyrir fjárfestingum í nýjum leikskóla, viðbyggingu við skóla og nýjum bæjarskrifstofum í miðbæjarkjarna. Auk þess er gert ráð fyrir miklum framkvæmdum við útivistarsvæði, gangstéttar og stíga á árunum 2009- 2011.
Fjárhagsáætlun og þriggja ára áætlun má nálgast hér á vefnum.
Fjárhagsáætlanir