Fjárfesting í fráveitu í Vogum og uppgreiðsla skulda fyrirhuguð á árinu 2010.

Fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Voga var lögð fram til fyrri umræðu þann 26. nóvember 2009 og seinni umræðu 17. desember 2009. Haldinn var opinn íbúafundur um fjárhagsáætlun og ráðstafanir í tengslum við hana þann 15. desember.
 
Í áætluninni birtist sú stefna sem mörkuð var í  upphafi efnahagskreppunnar að tryggja grunnþjónustu sveitarfélagsins á sviði félags- og fræðslumála og leitast við að tryggja gott atvinnustig í Vogum og á Suðurnesjum.
 
Skipaður var þverpólitískur vinnuhópur sem undirbjó áætlunina. Með hópnum vann bæjarritari. Fundurinn kom saman til fyrsta fundar þann 13. ágúst og hélt 12 fundi. Að loknum 6. fundi varð breyting á skipan fulltrúa í hópnum, en fulltrúar H –lista ákváðu að halda samstarfinu ekki áfram og voru formenn fagnefnda skipaðir í hópinn í þeirra stað.
 
Hópurinn kom sér saman um vinnureglur og meginmarkmið og lagði fram tillögur til hagræðinga og breytinga á rekstri, ásamt tillögum um breytingar á gjaldskrám og álagningarhlutföllum. Tillögur hópsins og aðgerðaáætlun eru grunnurinn að áætlun ársins.

Bæjarstjórn hefur samþykkt að hækka útsvarsprósentu úr 13,03% í 13,28%, en jafnframt að lækka fasteignaskatt á íbúðarhúsnæði úr 0,28% af fasteignamati í 0,265%. Jafnframt er vatnsgjald lækkað úr 0,19% í 0,15% og fráveitugjald hækkað úr 0,17% í 0,19% af fasteignamati. Almennt hækka gjaldskrár um 5% milli ára.

Áætlað er að skattstofnar standi nánast í stað frá árinu 2009. Gert er ráð fyrir að launakostnaður lækki um 9% milli ára og annar rekstrarkostnaður lækki um 13%. Munar þar töluvert um lækkun á leigugreiðslum til Eignarhaldsfélagsins Fasteignar. Gert er ráð fyrir hagræðingu í nánast öllum þáttum öðrum en félagsþjónustu og kennslu. Mest er hagræðingin á sviði íþrótta-og tómstundamála.
 
Helstu þættir eru eftirfarandi í þús. kr.

Áætlun
Tekjur:
Skatttekjur...................................     337.801
Framlög jöfnunarsjóðs................     141.000
Aðrar tekjur.................................     119.623
Alls                                                  598.424
 
Gjöld:
Laun og launatengd gjöld........          313.812
Annar rekstrarkostnaður..........         306.221
Afskriftir...................................           28.276
Alls                                                   648.309
Niðurstaða án fjármagnsliða             (49.885)

Fjármagnsliðir                                      63.374
Rekstrarniðurstaða                        13.489

Veltufé frá rekstri er áætlað          68.597

Gert er ráð fyrir fjárfestingum fyrir um 98 milljónir í nýjum útrásum fráveitu, íþróttasvæði og í opin svæði, leiksvæði leikskóla og endurgerð gatna. Þau verkefni munu skapa störf á uppbyggingartíma, en ekki auka rekstrarkostnað sveitarfélagsins að ráði.

Samhliða umræðu um fjárhagsáætlun hefur verið rædd tillaga um að hluti höfuðstóls Framfarasjóðs Sveitarfélagsins Voga verði nýttur til uppgreiðslu lána og hluta skuldbindinga í fasteignaleigusamningum. Fyrri umræða um þá tillögu, ásamt áliti sérfróðs aðila, fór fram þann 17. desember en önnur umræða verður í janúar. Gangi áformin eftir verður sveitarfélagið skuldlaust, en mun áfram eiga hundruði milljóna í Framfarasjóðnum.
 
Í þriggja ára rammaáætlun 2011- 2013 er gert ráð fyrir að íbúum fjölgi árlega að meðaltali um 2-3% á ári og tekjur bæjarins af útsvari og fasteignagjöldum hækki samsvarandi. Íbúafjöldi í lok tímabilsins verði um 1.300.

Mikil óvissa er um þróun atvinnustigs, en búist er við að uppbygging í tengslum við álver í Helguvík og þróun á Keflavíkurflugvelli muni skapa ný störf á tímabilinu og atvinnuleysi fari minnkandi.

Ekki er gert ráð fyrir magnaukningu í þjónustu og því er rekstrarkostnaður áætlaður sá sami yfir tímabilið. Unnið verður að hagræðingaraðgerðum í samræmi við áherslur sem voru lagðar fram  í  fjárhagsáætlun ársins 2009 og 2010.
Áætlað er að halli af reglulegri starfsemi fari minnkandi á tímabilinu og rekstrarafgangur verði árið  2012.  Fjárfestingarammi er áætlaður um 100 milljónir á ári, lækkar árið 2013 í rúmar 60 milljónir. Áhersla er lögð á fjárfestingar sem skapa atvinnu, en auka ekki rekstarkostnað.

 
Fjárhagsáætlun og þriggja ára áætlun má nálgast á vef sveitarfélagsins.

Mynd: Listaverkið Íslands Hrafnistumenn eftir Erling Jónsson, sem sett var upp við Vogatjörn árið 2008.