Fjárbeitarhólf

Tilmæli hafa borist til hreppsnefndar frá Ólafi Dýrmundssyni landnýtingarráðunauti Bændasamtakanna varðandi fjárbeitarhólf hreppsins. Ólafur telur þörf á stækkun hólfsins. Hann telur að með því náist það mikilvæga markmið að koma endanlega í veg fyrir lausagöngu búfjár í hreppnum og þá slysahættu sem því fylgir. Brögð hafa verið á því að fé sé sleppt lausu í heiðina á þeim forsendum að ekki sé nægilega rúmt á því í beitarhólfinu og beit jafnvel ekki nægileg.

Ólafur telur það vera ótvíræðan hag landeigenda að samþykkja stækkun hólfsins. Góð reynsla sé af beitarhólfum t.d. í Miðneshreppi, Mosfellssveit og á Kjalarnesi. Þar hafi landeigendur sýnt þessum málum mikinn skilning og séð kosti þess. Ólafur getur þess að markviss landgræðsla, sem er stunduð í beitarhólfum, skili betra og verðmætara landi. Hann telur að hér sé um framfaramál að ræða.

 

Hreppsnefnd tekur undir það að brýnt sé að koma endanlega í veg fyrir lausagöngu búfjár innan hreppsins. Hreppsnefnd samþykkir því að fara í viðræður við hlutaðeigandi landeigendur um stækkun hólfsins. Samþykki þeir stækkunina mun nefndin leggja áherslu á það við Vegagerðina að hún standi straum að kostnaði við stækkun hólfsins m.a. vegna tvöföldunar Reykjanesbrautar, sem nú stendur yfir.