Námskeið fyrir atvinnuleitendur sem vilja taka þátt í verkefninu Félagsvinir atvinnuleitenda eru að fara í gang á suðurnesjum í byrjun september. Verkefnið hefur það markmið að virkja og styrkja atvinnuleitendur í starfsleit sinni. Það er meðal annars gert með því að auka aðgengi þeirra að upplýsingum um þau úrræði sem eru í boði fyrir atvinnuleitendur. Markmiðin fyrir þátttakendur verkefnisins eru: Hjálp til sjálfshjálpar, vinna gegn niðurbroti, stækka tengslanet og auka möguleika til starfa. Vert er að taka fram að námskeiðin eru þátttakendum að kostnaðarlausu en skráning nauðsynleg.
Námskeið fyrir sjálfboðaliða verður haldið í Virkjun frá 1. sept.-9. sept. kl. 10:00-14:00 á virkum dögum. Námskeiðið er 28 stunda og lögð er áhersla á að þátttakendur fái upplýsingar um þau úrræði sem eru í boði fyrir atvinnuleitendur ásamt sjálfstyrkingu, ræðuþjálfun og kennslu í viðtalstækni.
Námskeið fyrir atvinnuleitendur sem óska eftir félagsvini verður haldið í Virkjun þriðjudaginn 13. september kl. 12:00-15:00. Á námskeiðinu er farið yfir markmiðssetningar og lögð áhersla á gerð vinnuáætlunar með persónuleg markmið þátttakenda að leiðarljósi.
Að námskeiðum loknum eru þátttakendur paraðir saman, þ.e. hver atvinnuleitandi er tengdur í þrjá mánuði við sjálfboðaliða sem ætlað er að vera hans stoð og stytta. Þeir hittast einu sinni í viku og vinna markvisst í þeim persónulegum markmiðum sem atvinnuleitandinn setur sér í upphafi sambands. Mikilvægt er að atvinnuleitendur skoði þarfir sínar og drauma í víðu samhengi áður en þeir setja sér markmið (hver er ég?, hvað vil ég?, hvernig vil ég að líf mitt sé? og hvernig kemst ég á þann stað?). Þegar þeir hafa sett sér raunhæf markmið þurfa þeir að ákveða hvernig þeir ætla að ná þeim.
Þeir atvinnuleitendur sem hafa áhuga á því að fá nánari upplýsingar um verkefnið eða skrá sig í það geta óskað eftir viðtali hjá verkefnisstjóra, Guðmundi Ingvari Jónssyni með því að senda póst á netfangið
gij@redcross.is eða hringja í síma 420-4706.