Félagsstarf eldri borgara hefst 19. september

Miðvikudaginn 19. september 2012 hefst félagsstarf eldri borgara að nýju í Álfagerði. Starfið er opið fyrir alla íbúa sveitarfélagsins 60 ára og eldri. Á fyrsta starfsdegi verður spiluð félagsvist. Guðbjörg Theodórsdóttir hefur nú látið af störfum sem umsjónarmaður félagsstarfsins en í hennar stað kemur Elsa Lára Arnardóttir sjúkranuddari og tekur við starfi umsjónarmanns. Elsa Lára verður með viðveru í Álfagerði mánudaga – fimmtudaga kl. 13 – 17.


Sveitarfélagið efndi í sumar til viðhorfskönnunar meðal íbúa sveitarfélagsins 67 ára og eldri og eru niðurstöður væntanlegar á næstu dögum. Þessar niðurstöður munu nýtast við stefnumótun sem framundan er í málaflokknum og verður m.a. unnin í samráði við fulltrúa eldri borgara í sveitarfélaginu. Sveitarfélagið kann þeim sem brugðust vel við og svöruðu spurningum þeirra sem önnuðust gerð könnunarinnar kærar þakkir fyrir þátttökuna. Sveitarfélagið mun á næstunni boða til almenns kynningarfundar um niðurstöðu rannsóknarinnar ásamt því að fjalla um stefnumótun og frekari mótun starfs eldri borgara.