Félagsmálaráðherra lagði hornstein að Stórheimili í Vogum

Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra lagði í gær hornstein að Stórheimili Búmanna í Vogum. Verkefnið hefur það markmið að skapa nýjan valkost fyrir eldra fólk, þar sem boðið verður upp á ýmis konar þjónustu.

Búmenn hófu byggingu stórheimilis í Vogum á árinu 2006 og verður heimilið tekið í notkun undir lok þessa árs. Í húsinu eru 13 íbúðir, 1-2 herbergja, sem tengjast þjónustumiðstöðinni með glergöngum. Væntanlegir íbúar kaupa búseturétt af Búmönnum og greiða allan rekstrarkostnað íbúðanna. Sveitarfélagið Vogar kaupir samskonar afnotarétt af þjónustumiðstöðinni og greiðir rekstrarkostnað við hana, en húsnæðið er allt í eigu Búmanna.

Í gær afhentu Búmenn nýjum íbúum jafnframt sex íbúðir í parhúsum við Vogagerði og Akurgerði. Búmenn eiga fyrir einar 10 íbúðir í Vogum, en í lok árs verða þær orðnar 29 með tilkomu stórheimilisins og parhúsanna.

Í ávarpi Birgirs Arnar Ólafssonar, forseta bæjarstjórnar kom fram að efnt verður til hugmyndasamkeppni um nafn á heimilið sem kynnt verður nánar á vef sveitarfélagsins. Birgir lagði áherslu á að með tilkomu þjónustumiðstöðvarinnar skapist tækifæri til að þróa áfram þjónustu við eldri borgara í sveitarfélaginu.

,,Með þessari aðstöðu skapast gott tækifæri til að þróa þjónustu fyrir eldri borgara. Hluti þeirrar þjónustu er nú á hendi sveitarfélagsins, en hluti á vegum Heilbrigðisstofnunnar Suðurnesja. Hver veit nema öll þjónustan verði komin á hendi sveitarfélagsins innan fárra ára, og þá erum við í Vogum tilbúin til að takast á við það verkefni með auknu fjármagni frá ríkinu.
Ekki má líta svo á að á borðinu sé fullmótuð hugmynd að nýtingu og starfsemi stórheimilisins.  Þvert á móti þá hefst nú nánari þróun á félagsstarfi eldri borgara með tilliti til aðstöðunnar og þeim auknu möguleikum sem hún býður upp á.  Eins og gefur að skilja munu hugmyndir og skoðanir eldri borgara móta starfið.  Ásamt þeim munu þeir sem vinna að félagsmálum fyrir sveitarfélagið koma að þeirri vinnu
Það er að okkar mati mikilvægt að þeir sem nota eiga þjónustuna hafi sem mest um hana að segja og móti starfið sem hér mun fara fram.  Því hefur verið ákveðið að koma á fót öldungaráði á komandi dögum þar sem opnaður verður mikilvægur vettvangur fyrir umræður og stefnumótun í málefnum eldri borgara í Sveitarfélaginu Vogum."

Allir eldri íbúar sveitarfélagsins munu geta sótt þjónustumiðstöðina. Gert er ráð fyrir að þar verði seldur heitur matur í hádeginu og kaffiveitingar. Þar verður sveitarfélagið einnig með tómstundastarf og gert er ráð fyrir aukinni þjónustu þegar fram líða stundir.

Guðrún Jónsdóttir arkitekt, sem jafnframt er formaður Búmanna, hannaði Stórheimilið í Vogum en Trésmiðja Snorra Hjaltasonar er verktaki.

Mynd frá Helga Bjarnasyni, www.mbl.is