Farfuglar

Íbúum Voga fjölgar um hundruð, jafnvel þúsundir þessa dagana.  Farfuglar flykkjast nú til landsins.  Helsta sönnun þess að vorið er á næsta leiti og vetur senn að baki. 

Ekki er á neinn hallað þó sagt sé að heiðlóan sé sú sem flestir bíða eftir og gleðjast yfir.  Til hennar hefur heyrst og sést hér í bæ að undanförnu.

Hingað kemur heiðlóan frá vestur-Evrópu þar sem hún hefur vetursetu.  Um 300.000 pör verpa hér á landi á hverju sumri og hvergi í heiminum mun hún vera algengari. 

Fyrir fuglaáhugafólk er nú genginn í garð einn áhugaverðasti tími ársins.   Farfuglar flykkjast til landsins og ýmsir flækingar sem gaman er að kynnast.  Sílamáfur, sandlóa og lóuþræll eru meðal þeirra farfugla sem sjást í fjörunum neðan Voga á þessum árstíma.  Krían er seinna á ferð og kemur að öllu óbreyttu fyrripart maímánaðar.  Vogabúar fyrr á árum héldu því reyndar fram að krían kæmi alltaf 7. maí. Hettumávurinn er mættur fyrir nokkru en það kemur fyrir að fólk ruglast á honum og kríunni.  

Svonefndir umferðarfuglar hafa viðdvölin hér á landi á vorin og haustin.  Stoppið hér er þeim mikilvægt.  Sumarið á varpstöðvum þeirra er stutt og þeir þurfa að fita sig fyrir erfitt farflug yfir Grænlandsjökul.  Ísland er eins konar “bensínstöð” fyrir þá.  Umferðarfuglar sem gjarnan sjást í Vogum á vorin og haustin eru margæsir, tildrur og rauðbrystingar.
 
Fyrir áhugasama er fjaran neðan Voga tilvalin til fuglaskoðunar.  Þar hafa flokkar fugla viðkomu á skerjum og jafna sig og safna orku eftir langt og strembið flug yfir hafið. 

Eftir nokkrar vikur verða sett upp fræðsluskilti í Vogum þar sem meðal annars má lesa um og skoða myndir af hinum ýmsu fuglum sem algengir eru í fjörunni neðan Voga og á Vogatjörn.  Umhverfisnefnd hefur unnið að gerð skiltanna og fengið til liðs við sig fuglafræðing og annað áhugafólk og fræðimenn um náttúru og sögu Voga.

Við Vogabúar bjóðum farfuglana velkomna og vonumst til að sambúðin við þá gefi þeim friðsæld og okkur ánægjustundir.

Helga Ragnarsdóttir
Varaformaður umhverfisnefndar