Kjörskrár liggja nú frammi fram að kjördag. Hægt er að koma á bæjarskrifstofuna og fletta upp í kjörskránni, en það er líka hægt að athuga það á kosningavef dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins www.kosning.is
Athugaðu hvar þú ert á kjörskrá á kosning.is
Á kjörskrá eiga að vera allir íslenskir ríkisborgarar sem skráðir voru með lögheimili í ákveðnu sveitarfélagi samkvæmt íbúaskrá þjóðskrár 8. maí 2010 og fæddir eru 29. maí 1992 og fyrr.
Á kjörskrá skulu vera þeir danskir, finnskir, norskir og sænskir ríkisborgarar sem lögheimili hafa átt á Íslandi í þrjú ár samfellt frá 29. maí 2007 enda séu þeir fæddir 29. maí 1992 og fyrr. Ennfremur skulu vera á kjörskrá aðrir erlendir ríkisborgarar sem lögheimili hafa átt á Íslandi í fimm ár samfellt frá 29. maí 2005 enda séu þeir fæddir 29. maí 1992 og fyrr. Þessir erlendu ríkisborgarar eiga að vera á kjörskrá í því sveitarfélagi þar sem þeir voru með skráð lögheimili samkvæmt íbúaskrá þjóðskrár 8. maí 2010.
Þá eiga kosningarrétt þeir íslenskir ríkisborgarar, fæddir 29. maí 1992 og fyrr, sem flutt hafa lögheimili sitt frá Íslandi til hinna Norðurlandanna samkvæmt Norðurlandasamningi um almannaskráningu, enda eigi ákvæði 9. gr. laga um lögheimili nr. 21/1990 við um hagi þeirra (fyrst og fremst námsmenn).