Aðventustundir í Álfagerði

Aðventugleði alsráðandi í Álfagerði
Aðventugleði alsráðandi í Álfagerði

Dagskráin hófst í lok nóvember með gerð útikerta úr kertaafgöngum. Að því loknu var hafist handa við smákökubakstur og laufabrauðsgerð. Einnig voru gerðir grenikransar og leiðisgreinar úr ferskum og ilmandi greinum af ýmsum trjám. Útkoman var glæsileg og fjölbreytt og vakti mikla lukku meðal þátttakenda.

Síðasta formlega samveran fyrir jól var tónlistarbingó, sem tókst frábærlega og hefur verið ákveðið að endurtaka fljótlega. Auk þessara viðburða var ýmislegt annað brallað, þar á meðal saumaðir margnota jólapokar og föndrað jólaskraut.

Á aðventunni nutum við einnig dýrmætra heimsókna. Kór leikskólans Suðurvalla kom og söng jólalög fyrir okkur, og nemendur úr tónlistarskólanum spiluðu nokkur vel valin lög. Þessi tími hefur verið afar gefandi og skemmtilegur fyrir alla sem tóku þátt, og við hvetjum fleiri til að vera með í þessu ánægjulega starfi á nýju ári.

Starfsmenn Álfagerðis senda innilegar jólakveðjur og óskir um gleðilegt nýtt ár til allra íbúa Sveitarfélagsins Voga.