Fyrsta helgin í aðventu í Vogunum var sannkölluð veisla af jólailmi, gleði og samveru fyrir alla aldurshópa. Ljósadýrðin, handverkið og jólastemmningin settu skemmtilegan svip á bæinn þegar íbúar og gestir komu saman til að fagna upphafi aðventunnar.
Kveikt á jólatrénu í Aragerði
Á föstudagsmorgni, klukkan 09:30, var jólatréð í Aragerði tendrað fyrir yngstu kynslóðina. Börn úr leikskólanum skreyttu tréð af mikilli gleði, og nemendur úr 1.–4. bekk tóku þátt í dansi í kringum jólatréð. Jólasveinninn Stúfur lét sig ekki vanta og söng og dansaði með börnunum, sem nutu stundarinnar í botn. Jólatréð var höfðingleg gjöf frá þeim hjónum Kristínu og Leifi.
Kökubasar og jólabingó
Á laugardeginum hélt Kvenfélagið Fjóla hinn árlega kökubasar sinn, sem alltaf vekur mikla lukku meðal bæjarbúa. Um kvöldið var svo Jólabingó Lions haldið, þar sem gestir fylltu húsið og skemmtu sér konunglega. Bingóspennan var í hámarki og jólaleg stemmning sveif yfir vötnum.
Epladagur og jólatrésskemmtun
Á sunnudeginum blés Minja- og sögufélag Vatnsleysustrandar til Epladagsins. Jólamarkaður í Skjaldbreið bauð upp á fjölbreytt handverk og jólalega iðju. Gestir gátu búið til sín eigin kerti og skreytt epli, og Þórarinn Eldjárn las upp úr bók sinni Dótarímur við mikla ánægju viðstaddra. Norðurkot var fagurlega skreyt.
Gestum var boðið upp á jóladrykki og kræsingar, þar á meðal malt og appelsín, ristaðar möndlur, skreytt epli og piparkökur, sem kórónuðu þessa jólahátíð.
Dagurinn endaði með jólatrésskemmtun í Aragerði. Þar flutti Arnór Bjarki Blomsterberg stutta hugvekju, kirkjukórinn söng falleg jólalög, og að lokum mætti Gáttaþefur til að gleðja unga sem aldna.
Aðventustemmning í Vogunum
Fyrsta helgi aðventunnar var hin fullkomna byrjun á jólamánuðinum í Vogunum. Þetta var helgi sem sameinaði bæjarbúa og gesti í anda jóla með gleði, ljósi og góðum samverustundum.