Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum hefur ákveðið að aflýsa hættustigi vegna eldgoss í Meradölum á Reykjanesskaga. Jafnframt er aflýst óvissustigi almannavarna vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga.
Virkni í gígunum í Meradölum hefur legið niðri í tæpar þrjár vikur og óróamælingar hafa verið í samræmi við það. Enn er fylgst vel með svæðinu með tilliti til aukinnar skjálftavirkni, óróa og landbreytinga. Búast má við innskotavirkni og jarðskjálftum á Reykjanesskaga á næstu misserum og er fólk því hvatt til þess að ganga vel frá innanstokksmunum til að koma í veg fyrir líkamsmeiðsl og tjón.
Við gosstöðvarnar starfa nú landverðir. Þeir hafa m.a. eftirlit með umferð og umgengni fólks. Lögregla og björgunarsveitir koma til með að sinna útköllum og hjálparbeiðnum en dregið verður úr viðveru þeirra á svæðinu.
Í tilkynningu frá Almannavörnum er bent á að varhugavert sé að fara út á hraunið en gígar og eldhraun njóta sérstakrar verndar samkvæmt ákvæðum náttúruverndarlaga.