Í síðasta þætti var sagt frá Ögmundi Sigurðssyni sem var aðalkennari Gerðaskóla í 8 ár og lengi fylgdarmaður Þorvaldar Thoroddsen, en lengstum kennari og skólastjóri Flensborgarskóla.
Ögmundur stofnaði 1880, ásamt tveimur öðrum Timarit um uppeldi og menntamál. Í 3. árgang, 1890, skrifar Ögmundur um skóla á Suðurnesjum. Á þeim tíma er hann kennari í Garðinum og hefur átt þess kost að kynnast skólunum þar í grennd. Hann lýsir byggðunum og skólunum í stuttu máli þannig (mikið stytt):
Vatnsleysuströnd með Vogum, nokkuð löng strandlengja suður að Vogastapa; þar er margt fólk. Í þessu byggðarlagi er einn skóli, sem allir geta sótt af Ströndinni og úr Vogunum. Skólinn komst á stofn fyrir forgöngu sjera Stefáns Thorarensen á Kálfatjörn. Bjó hann svo um, að fjárhagur skólans mun vera svo góður, að enginn barnaskóli hjer syðra mun hafa eins góð efni. Skólinn á allvænt hús og jörð, sem kennarinn hefur til ábúðar.
Njarðvíkur eru í tvennu lagi: Innra- og Ytrahverfi. Höfðu upphaflega aðgang að skólanum á Ströndinni, en síðustu ár hefur verið skóli í Innrahverfinu, sóttur úr báðum hverfunum.
Keflavík er kaupstaður og allmikil byggð; þar hefur suma vetur verið skóli, en stundum hefur hann lagzt niður, þrátt fyrir þótt þar sje all mannmargt og mjög hægt að sækja skóla. Síðastliðinn vetur var haldinn barnaskóli í 6 mánuði með 23 börn á ýmsu reki, skipt í 2 deildir. Skólinn á enn ekkert húsnæði, en handa honum var leigt «Good-Templarshúsið», í alla staði ágætt húsnæði. Áhöld átti skólinn engin, en kennarinn átti landabrjef og hnött.
Fyrir utan Hólmsberg kemur dálítil byggð, sem heitir Leira; þar er þjettbýlt og nokkuð mannmargt. Þar hefur skóli verið haldinn í 2 ár, í 3-4 mánuði. (Myndin er af skólahúsi sem byggt var að Nýlendu í Leiru 1910 og var 43 m2)
Þar fyrir utan er Garðurinn, mannmörg byggð og þjettbyggð, Þar hefur skóli verið í 18 ár; til þessa skóla gætu líka með hægu móti sótt börn úr Kirkjubóls-hverfi; sú byggð er á sunnanverðum Garðskaga. Sagt var ítarlega frá þessum skóla í 13. þætti.
Þar fyrir sunnan kemur Miðnes, strandlengja allt suður að Stafnesi; þar hefur umgangsskóli verið hafður í nokkur ár, því byggðin er svo löng að þar geta öll börn tæplega sótt einn skóla. Kennt er á 2 stöðum, 2-4 mánuði á hvorum stað. Fjárhagur skólans er þannig: útgjöldin eru laun kennarans, 285 kr., húsaleiga 18 kr.; kol og fl. 10. kr., samtals 313 kr. Tekjurnar: 45 kr. úr landssjóði; styrkur úr Thorcilliisjóði handa 4 börnum, 20 kr. með hverju = 80 kr. Þær 188 kr. sem á vantar er skipt niður á þá, sem sendu börnin á skólann, rúmar 8 kr á hvert barn. Sveitin styður ekkert þessa stofnun sína.
Milli Stafness og Reykjaness, fyrir sunnan fjörð, sem nefnist Ósar, er byggð allmikil, sem nefnist Hafnir. Þar eru þjettir bæir og margt fólk, svo vel gætu öll börn sótt þar að skóla. Þar hefur verið haldinn skóli að nafninu til í nokkra vetur, um 4 mánuði, í mjög óhentugu húsi, í mjög þröngum baðstofuenda sem kennarinn hefur lagt til, svo þröngum að börnin hafa eigi getað skrifað öll í einu og tæplega getað öll haft sæti, nema með því að troðast hvert ofan á annað. Það lítur þó svo út, sem Hafnamenn standi betur að vígi en almennt gerist, að því, að geta byggt sjer skólahús. Þar hefur
í mörg ár verið sannkölluð timburnáma, síðan hið mikla timburskip strandaði þar. Þaðan er enn þá selt drjúgum timbur, og miklu timbri er brennt árlega af strandi þessu. Af öllum þessum við, sem mátti fá fyrir svo ákaflega lítið verð, hefur sveit þessi eigi varið svo miklu til sameiginlegra þarfa, sem að koma sjer upp húsi, er notað yrði til skóla og opinberra fundarhalda.
Í vetur voru á skóla þessum 10 börn. Kennari var Magnús Jónsson, gamall maður sem gekk í latínuskólann. Laun hans eru lítil.
Á austanverðu Reykjanesi er Grindavík, þar hefur verið umgangskennsla 2 síðustu vetur. Þar gætu öll börn sótt skóla.
Kristindómskennslan og lesturinn, sem áður var eingöngu verk heimilanna, hefur verið falið þessum skólum, og reikning og skript bætt við. Þeir virðast eingöngu vera til þess að losa heimilin við alla kennslu, en veita þó ekki eins mikla fræðslu og meðal heimili með meðal ástundun. Það er engin rækt lögð við þá; börnunum líður illa, hafa ekki gott lopt og er stundum kalt, en fá kannske þá hugmynd að leikslokum, að þau sjeu nokkuð vel að sjer, af því að þau hafa gengið á skóla.
Heimild. Ögmundur Sigurðsson. 1890. Um skóla á Suðurnesjum. Tímarit um uppeldi og menntnamál 3. árg. 1990, bls. 87-98.