Mánudaginn 22. ágúst tók gildi endurbætt áætlun almenningssamgangna við Voga.
Nokkrar breytingar hafa verið gerðar á áætluninni frá því sem var og því nauðsynlegt fyrir íbúa að kynna sér nýja tímatöflu sem dreift var í öll hús í Sveitarfélaginu Vogum sl. föstudag, tímatöfluna má einnig finna
HÉR. Þær breytingar sem gerðar voru eiga að bæta þjónustuna. Allar athugasemdir um fyrirkomulagið og ábendingar um það sem betur má fara skulu berast á netfangið
sv.vogar@vogar.is einnig má koma skriflegum athugasemdum á skrifstofu sveitarfélagsins á opnunartíma.
Við viljum þó benda á að um er að ræða almenningsvagnakerfi. Það getur því ekki virkað eins og leigubíll fyrir íbúa sveitarfélagsins.
Meðal helstu nýmæla eru ferðir fjórar ferðir alla virka daga frá Gamla Pósthúsinu að biðskýlum við Vogaafleggjara en áætlunarbíll SBK stoppar við biðskýli við Vogaafleggjara í öllum ferðum sem eru á áætluninni. Við þetta nýja fyrirkomulag verður ekki hægt að hringja eftir rútunni og fá hana niður í sveitarfélagið. Engar fyrirhugaðar ferðir verða frá afleggjaranum og niður í bæ um helgar.
Kort með 20 strætómiðum verða seld með góðum afslætti á skrifstofu sveitarfélagsins. Ef keypt eru kort kostar ferðin til höfuðborgarsvæðisins 540 kr. fyrir fullorðna, 175 kr. fyrir börn og 172 kr. fyrir aldraða og öryrkja. Íbúar sveitarfélasins geta ferðast gjaldfrjálst til Reykjanesbæjar, Sandgerðis, Garðs og Grindavíkur. Aðeins þeir sem hafa skráð lögheimili í Sveitarfélaginu Vogum geta að nýta sér þennan afslátt.
Vogastrætó er tilraunasamstarf SBK og sveitarfélagsins og stendur frá 20. ágúst 2011 til 20. ágúst 2012. Eftir það verður samstarfið endurskoðað. Við ákvörðun um framhald samstarfsins mun bæjarstjórn fyrst og fremst taka tillit til athugasemda sem borist hafa og fjölda farþega sem nýta sér þjónustuna.
Þessi breyting er enn einn liðurinn í því að gera samgöngur innan svæðis á Reykjanesi betri og öflugri til góða fyrir alla íbúa svæðisins. Sandgerði og Garður hafa kjörorðið „Hættum að skutla og notum STRÆTÓ“ og gerum við það að okkar.
Með von um góðar viðtökur
Bæjarráð Sveitarfélagsins Voga