Elstu nemendur Heilsuleikskólans Suðurvalla komu í heimsókn á bæjarskrifstofurnar í dag, föstudag. Það er árviss viðburður að elstu nemendur komi í heimsókn og skoði bæjarskrifstofurnar, spjalli við starfsfólkið og fundi með bæjarstjóra. Heimsóknin er hluti af samfélagsfræðslu barnanna, en þau læra um merki bæjarins og fá fræðslu um hlutverk sveitarfélagsins.
Í dag komu 14 nemendur í fylgd Oddný aðstoðarleikskólastjóra og Heiðu leikskólakennara.
Krakkarnir voru stilltir og prúðir og spurðu ýmissa spurninga. Auk þess settu þau fram ýmsar ábendingar um það sem betur mætti fara, eins og t.d. að sanda betur gangstéttar þegar það er hált úti og hætta að moka stórar holur í göturnar. Aðspurð sögðu þau eitt það skemmtilegasta við að búa í Vogum sé að leika sér í brekkunni í Aragerði og að veiða síli við Vogatjörn.
Myndir. Bæjarstjóri segir frá merki bæjarins.
Nemendur gæða sér á Svala og kleinum í lok fundar.