Einstakir jólatónleikar til styrktar fjölskyldum á Suðurnesjum

Fimmtudaginn 18. desember ætlar einvalalið tónlistarmanna tengdir Suðurnesjunum að koma fram á jólatónleikum til styrktar Velferðarsjóði Suðurnesja. Á tónleikunum munu koma fram Elíza Geirsdóttir Newman, Jóhann Helgason, Karlakór Keflavíkur, Klassart, Kvennakór Suðurnesja, Magnús, Kjartan Már og Finnbogi Kjartanssynir, Rúnar Júlíusson og fjölskylda, Sigurður Guðmundsson, Védís Hervör og Þóranna Kristín. Allir aðstandendur, og þeir sem fram koma, gefa vinnu sína og rennur andvirði aðgöngumiða óskert til Velferðarsjóðs Suðurnesja.

Markmið Velferðarsjóðs Suðurnesja er að veita stuðning til einstaklinga og fjölskyldna á svæðinu til viðbótar þeim úrræðum sem þegar hafa verið í boði. Að að baki honum standa þjóðkirkjan, ýmis félagasamtök, stéttarfélög, fyrirtæki og einstaklingar á Suðurnesjum og sér Hjálparstarf kirkjunnar um framkvæmd og utanumhald sjóðsins.

Viðtökur við tónleikunum hafa verið frábærar og allir eru boðnir og búnir til að leggja sitt af mörkum. Auk tónlistarmannanna hafa fyrirtæki tekið vel í að styrkja verkefnið með framlögum í ýmsu formi. Þannig leggur Bláa Lónið til salinn, Sparisjóðurinn í Keflavík styrkir verkefnið og sér auk þess um miðasölu á tónleikana, Grágás gefur prentun og keflvískir hönnuðir sjá um auglýsingagerðina. Allt þetta geri það mögulegt að láta ágóðann renna óskertan til málefnisins.

Tilgangur tónleikanna er ekki eingöngu að styrkja fjölskyldur með framlagi í sjóðinn heldur einnig að gefa Suðurnesjamönnum og öðrum tækifæri til að koma saman á aðventunni. Tónleikarnir eru tilvalin leið til að taka hlé frá jólastressinu og efnahagsástandinu. Allir eru hvattir til að sýna samhug í verki, njóta fallegrar jólatónlistar og stuðla um leið að því allir geti átt gleðileg jól á Suðurnesjum.

Tónleikarnir eru fimmtudaginn 18. desember og hefjast  kl. 20:00 í Lava sal Bláa Lónsins. Miðaverð er kr. 2.500,-  og forsala aðgöngumiða fer fram í útibúum Sparisjóðsins um öll Suðurnes.

Frekari upplýsingar um Velferðarsjóð Suðurnesja veitir Sr. Skúli Ólafsson, sóknarprestur í Keflavíkurkirkju, netfang: skuli@keflavikurkirkja.is

Frekari upplýsingar um tónleikana veitir Þóranna K. Jónsdóttir, verkefnastjóri, netfang: thorannakristin@gmail.com og GSM: 690 4412.

Auglýsing