Blómaskoðun verður við Vogatjörn sunnud. 11. júní kl. 11 - 13. Þá er haldinn Dagur hinna viltu blóma um öll Norðurlönd. Þann dag gefst fólki víðs vegar um landið kostur á að fara í tveggja tíma gönguferð um nágrenni sitt án endurgjalds, og fá leiðsögn um algengustu plöntur sem þar vaxa. Gönguferðir þessar eru ókeypis fyrir þátttakendur, og ekki þarf að tilkynna þátttöku fyrir fram, heldur aðeins mæta á auglýstum stað á réttum tíma.
Aðkomufólk beygir af Reykjanesbraut og ekur niður í Voga án þess að taka beygju og er þá óðar komið að Vogatjörn.
Vogatjörn er lítt röskuð náttúruperla í hjarta þéttbýlisins Voga. Hún er á náttúruminjaskrá ásamt fleiri tjörnum á Vatnsleysuströnd. Villtur gróður er á bakkanum á þrjá vegu, auk þess vex ýmiss gróður úti í tjörninni (gott að vera á stígvélum). Skammt frá er smá vallendi, sem eru leyfar af gamla Stóru-Vogatúninu, og einnig svonefndur reskigróður á röskuðu landi eftir að byggt var við Stóru-Vogaskóla. Örstutt er til sjávar og sjálfsagt að huga einnig að strandgróðri.
Blómaskoðun sem þessi er til fróðleiks og skemmtunar og til að njóta náttúrufegurðar. Allir eru velkomnir – fullorðnir sem börn - hvort sem þeir þekkja mikið eða lítið af plöntum. Þeir sem meira kunna miðla hinum. Þeir sem eiga plöntubækur mættu taka þær með. Þeir sem vilja fá eyðublöð til að skrá þær plöntur sem þeir finna.
Plöntuskoðun sem þessi er framkvæmd um öll Norðurlönd þennan sama dag. Dagur viltra blóma var haldinn í fyrsta sinn á Íslandi 2004 á 10 stöðum á landinu. Þá komu m.a. 20 blómaunnendur saman á Háabjallasvæðinu, áttu saman frábæra dagstund og tókst í sameiningu að greina u.þ.b. 80 tegundir háplantna, þar á meðal nokkrar sem ekki höfðu verið skráðar þar áður.
Frumkvæðið hér á landi kemur frá Flóruvinum undir forystu Harðar Kristinssonar, grasafræðings á Akureyri, sjá http://www.floraislands.is/blomadagur.htm