Blómaskoðun verður við Hrafnagjá í Vogum sunnud. 14. júní kl. 11 - 13. Þá er haldinn Dagur hinna viltu blóma um öll Norðurlönd. Þann dag gefst fólki víðs vegar um landið kostur á að fara í tveggja tíma gönguferð um nágrenni sitt án endurgjalds, og fá leiðsögn um algengustu plöntur sem þar vaxa. Gönguferðir þessar eru ókeypis fyrir þátttakendur.
Hrafnagjá er náttúruperla í þjóðbraut, skammt frá Reykjanesbraut á móts við Voga. Hún er á náttúruminjaskrá ásamt Háabjalla, Sólbrekkum og Seltjörn. Hrafnagjá er mikilfenglegust af mörgum misgenginssprungunum í Vogaheiði, en hærri veggur hennar vísar í suður og því sést hún ekki frá Reykjanesbraut.
Safnast verður saman á áningarstaðnum við mislæg gatnamót Reykjanesbrautar við Voga kl. 11. Þaðan er gengið í u.þ.b. 20 mín. í suðaustur í átt að Keili.Gjáin sést ekki fyrr en komið er að henni. Hún getur verið hættuleg og þurfa foreldrar að hafa auga með börnum sínum. Þarna er gott skjól í norðanátt og sólríkt fram eftir degi. Leiðbeinendur verða Þorvaldur Örn Árnason og Ragnheiður E. Jónsdóttir.
Blómaskoðun sem þessi er til fróðleiks og skemmtunar og til að njóta náttúrufegurðar. Allir eru velkomnir – fullorðnir og börn í fylgd fullorðinna - hvort sem þeir þekkja mikið eða lítið af plöntum. Þeir sem meira kunna miðla hinum. Þeir sem eiga plöntubækur mættu taka þær með, líka stækkunargler. Á staðnum verða eyðublöð til að skrá þær plöntur sem finnast. Niðurstöður verða sendar Náttúrufræðistofnun og eru liður í að kortleggja útbreiðslu plöntutegunda á Íslandi.
Plöntuskoðun sem þessi er framkvæmd um öll Norðurlönd þennan sama dag. Dagur viltra blóma var haldinn í fyrsta sinn á Íslandi 2004 á 10 stöðum á landinu. Þá komu m.a. 20 blómaunnendur saman á Háabjallasvæðinu, áttu saman frábæra dagstund og tókst í sameiningu að greina u.þ.b. 80 tegundir háplantna, þar á meðal nokkrar sem ekki höfðu verið skráðar þar áður. Í fyrra var blómaskoðun víða á landinu, m.a. við Vogatjörn.
Frumkvæðið hér á landi kemur frá Flóruvinum undir forystu Harðar Kristinssonar, grasafræðings á Akureyri, sjá http://www.floraislands.is/blomadagur.htm