Boltinn farinn að rúlla, Þróttur leikur í bikarnum í dag, miðvikudag.

Það er merki um sumarkomu þegar knattspyrnufólk fer að sjást á knattspyrnuvöllum landsins. Það á við hér í Vogum eins og annars staðar enda er knattspyrnufólk á vegum Umf. Þróttar farið að stunda æfingar og keppni af kappi. 
 
Næsti leikur hjá Þrótti er á miðvikudaginn gegn H.K. á Kópavogsvelli í VISA-bikar karla og hefst hann kl. 19:00. Þróttarar lögðu lið Ármanns 3-1 á Vogavelli fyrir nokkrum dögum í fyrstu umferð bikarsins og unnu sér þar með rétt til að mæta sterku liði H.K. Sigurliðið á miðvikudaginn kemst áfram í 32-liða úrslit VISA-bikarsins þar sem lið úr efstu deild bætast í pottinn. Fyrsti leikur Þróttar í 3. deildinni verður síðan mánudaginn 24. maí, annan í hvítasunnu, á Vogavelli kl. 14:00 þegar Eyjapeyjarnir úr KFS koma í heimsókn. Vogabúar eru hvattir til að mæta á völlinn í sumar og styðja við bakið á knattspyrnuliðum Þróttar.