Metsölurithöfundarnir Einar Kárason og Gerður Kristín koma á bókakynningu Lestrarfélagsins Baldurs þann 8. desember næstkomandi kl. 19 í bókasafninu við Stóru- Vogaskóla.
Gerður Kristný sendir frá sér bókina Garðurinn fyrir þessi jól.
Eyju bregður þegar hún lítur út um gluggann á nýju íbúðinni og sér að hinum megin við götuna breiðir gríðarmikill kirkjugarður úr sér. Þvílíkir nágrannar! Þó verður ástandið fyrst svart þegar pabbi hennar kaupir gamla leðurstólinn. Eyja finnur strax að í honum er eitthvað illt. Garðurinn er hörkuspennandi draugasaga fyrir lesendur frá 12 ára aldri.
Einar Kárason sendir frá sér bókina Ofsi fyrir þessi jól, sem er sjálfstætt framhald bókarinnar Óvinafagnaður.
Gissur Þorvaldsson snýr heim úr Noregsför, fús til sátta við Sturlungana. Þeir eru tortryggnir en láta sannfærast þegar Gissur leggur til að sonur hans kvænist inn í ætt þeirra. Fjölmenn brúðkaupsveisla til að innsigla friðinn er haldin á Flugumýri en ekki mæta allir sem boðið var; nýsaminn friður er ekki allra. Einar Kárason hefur áður glímt við Sturlungaöldina í Óvinafagnaði. Hér er sjónum beint að þeim atburðum sem leiddu af sér eitt skelfilegasta níðingsverk þessarar blóðugu aldar.
Áhugafólk um bókmenntir er hvatt til að mæta á þessa fyrstu bókakynningu Lestrarfélagsins.