Bæjarfjallið

Á síðasta ári tók framtakssamur aðili sig til og safnaði saman upplýsingum um öll bæjarfjöll í landinu. Sveitarfélagið Vogar var auðvitað ekki í vandræðum með sína tilnefningu – Keilir er bæjarfjallið okkar. Þetta merka fjall er úr móbergi, myndað í eldgosi undir jökli á ísöldinni, sem lauk fyrir um 10 þúsund árum. Fjallið er 379 metra hátt, tiltölulega auðveld ganga er upp á það að norðaustanverðu. Þetta merka fjall sést víða að og er þekkt fyrir sérstaka lögun sína. Þegar t.d. er ekið í suðurátt eftir Suðurgötunni í Reykjavík blasir Keilir við. Þá hefur fjallið löngum verið mið fyrir sjómenn.